Búddadómur / Saga búddadóms / Dalai Lama og lamasiður
 
Stundum er talað um Tíbetskan sið eða lamasið sem þriðju meginstefnu búddadóms en frá því að búddadómur barst til Tíbet á 7. öld hefur hann þróast þar á mjög sérstakan hátt. Áhrifin frá hindúasið eru sterk en mikil áhersla er lögð á flókna helgisiði með töntrum og jóga og margskonar helgihlutum, til dæmis sérstökum kortum (mandala), sprotum (vajra), hnífum (phurba), bjöllum (ghanta) og handtrommum (damaru).
Dalai Lama er yfirmunkur klaustursins í Tíbet. Þar sem Tíbet var munkaríki er Dalai Lama þar með einvaldur í landinu. Lama merkir fræðari eða meistari en Dalai merkir hafsjór. Dalai Lama er talinn vera Búdda endurfæddur. Þegar Dalai Lama deyr er leitað að sveinbarni eða yangsi sem gæti verið hann endurfæddur. Það er því leitað eftir ákveðnum merkjum til dæmis að barnið hafi fæðst með krosslagðar fætur. Þeir drengir sem koma til greina sem nýr Dalai Lama þurfa einnig að þreyta próf þar sem lagðir eru fyrir þá raunverulegir hlutir úr eigu hins fyrri Dalai Lama og eftirlíkingar. Það barn sem velur sér rétta hluti er Dalai Lama endurfæddur og er það flutt til Lhasa og þjálfað af munkunum eða lamaprestunum.
Árið 1959 lögðu kínverjar Tíbet undir sig og hraktist hinn 14. og núlifandi Dalai Lama í útlegð ásamt fjölda munka. Hann hefur síðan þá ferðast um allan heim til að kynna búddadóm og talað fyrir frelsi Tíbets. Hann var fyrsti Dalai Lama til að ferðast til Vesturlanda. Hann hefur skrifað margar bækur um frið, kærleika, hamingju og andleg málefni og árið 1989 hlaut hann Friðarverðlaun Nóbels.