Um víða veröld – Heimsálfur, kennsluleiðbeiningar - page 59

59
NÁMSGAGNASTOFNUN • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar
Ítarefni
Taíland
Taíland er konungsríki í Suðaustur-Asíu, um fimm sinnum stærra en Ísland. Norðurhluti Taílands er
hálendur en í miðju landinu eru frjósöm landbúnaðarhéruð. Í landinu vestanverðu gengur Malakka-
skagi til suðurs. Við landamæri Malasíu í suðri og í norðurhéruðunum við landamæri Laos og Kambódíu
vaxa regnskógar. Í Taílandi er rakt hitabeltisloftslag og árstíðabundnir monsúnvindar. Regntíminn hefst í
maí og stendur fram í október. Frá nóvember fram í mars blása þurrir vindar úr norðaustri. Á suðurhluta
Malakkaskaga er alltaf heitt og er úrkomu að vænta þar allt árið um kring.
Taíland er land sem hefur upp á margt að bjóða. Þar er blómleg ferðaþjónusta sem skapar landinu
mikinn gjaldeyri. Líkt og í nágrannaríkjunum er landbúnaður mikilvæg atvinnugrein sem um helmingur
landsmanna vinnur við. Á fljótasléttunum um miðbik landsins þar sem eru áveitur er mikið ræktað af
hrísgrjónum. Taílendingar flytja allra þjóða mest út af hrísgrjónum.
Fiskveiðar eru mikið stundaðar og er Taíland þriðja stærsta fiskveiðiþjóðin í Asíu á eftir Kína og Japan.
Fiskveiðar gjörbreyttust með tilkomu botnvörpuveiða upp úr 1960. Í dag hafa Taílendingar yfir að ráða
góðum fiskveiðiflota til úthafsveiða, svo góðum að upp úr 1980 fóru menn að hafa áhyggjur af ofveiði
fiskitegunda sem leiddi til þess að fiskveiðistjórnun var tekin upp. Fiskeldi í ám, vötnum og tjörnum er
einnig mikið.
Taíland er eitt af nýiðnvæddu löndunum í heiminum. Þar hefur iðnaðarframleiðsla til útflutnings stór-
aukist á kostnað landbúnaðarframleiðslu. Einkenni nýiðnvæddra landa er mikill hagvöxtur, þar sem
erlend fjármögnun og frjáls viðskipti við aðrar þjóðir eru leyfð.
Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna eru búddatrúar. Þar eru um 24.000 búddahof og um 200.000
munkar.
Aldrei nýlenda
Þó að evrópskir landkönnuðir hafi streymt til Taílands á 16. öld varð landið aldrei nýlenda
Evrópuríkja eins og nágrannalöndin. Helsta ástæðan fyrir því voru klókir stjórnendur í landinu,
sem nýttu sér þá spennu og samkeppni sem ríkti á milli Englendinga og Frakka sem þar
kepptust um yfirráð. Landið varð því hlutlaust í nýlendukapphlaupinu sem ríkti í Suðaustur-Asíu
á þessum tíma. Taílendingar hafa oftsinnis lagað utanríkisstefnu sína að sterkari öflum sem hefur
gert þeim kleift að að nútímavæðast á eigin forsendum.
Taíland hét Síam til ársins 1939. En þá var því gefið nafnið Taíland. Aftur fékk það nafnið Síam árið
1945 til 1949. Enn var því breytt í Taíland sem það hefur heitið síðan.
Verkefni
1. Hvaða lönd og höf liggja að Taílandi?
2. Hvað er helst ræktað í Taílandi?
3. Hvað er helst ræktað í öðrum löndum í þessum heimshluta?
4. Hverjar eru helstu iðngreinar í Taílandi og helstu framleiðsluvörur?
5. Hverjar eru helstu náttúruauðlindir í Taílandi?
6. Margir Íslendingar heimsækja Taíland. Hvar eru helstu ferðamannastaðirnir?
7. Af hverju varð Taíland aldrei nýlenda?
1...,49,50,51,52,53,54,55,56,57,58 60,61,62,63,64,65,66,67,68,69,...72
Powered by FlippingBook