Um víða veröld – Heimsálfur, kennsluleiðbeiningar - page 69

69
NÁMSGAGNASTOFNUN • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar
Ítarefni
Chile
Chile er langt og mjótt land á vesturströnd álfunnar, um 4500 km langt og ekki nema um 100 km þar
sem það er mjóst. Það á landamæri að Perú, Bólivíu og Argentínu eftir hinum snæviþöktu tindum And-
esfjalla. Kyrrahafið liggur að landinu vestanverðu og hefur mótað hina tæplega 6500 km löngu strand-
lengju. Nokkrar eyjar í Kyrrahafi tilheyra landinu og er sú vestasta Páskaeyja í Pólýnesíu, um 3500 km
undan ströndum landsins.
Óvanaleg lögun landsins er ástæða þess að þar ríkir fjölbreytt loftslag. Í norðri er Atacama-eyðimörkin,
sem er eitt þurrasta svæði jarðar. Þar hefur á sumum stöðum aldrei mælst úrkoma. Um miðbik landsins
ríkir Miðjarðarhafsloftslag. Þar eru aðstæður ákjósanlegar til ræktunar og búsetu. Þar hefur miðpunktur
menningar og stjórnmála verið allt frá því að landið þandist út á 19. öld, þegar það innlimaði svæði í
norðri og suðri. Syðst, þar sem heitir Patagónía, er kalt og vindasamt. Þar er landslag mjög mótað af
jöklum sem hafa sorfið landið þar í langan tíma. Einkenni landslagsins þar eru djúpir firðir og U-laga
dalir. Þar er Suður-Patagóníujökull, stærstur jökla á suðurhveli jarðar að Suðurskautslandinu undanskildu.
Hornhöfði er syðsti tangi Chile og jafnframt Suður-Ameríku. Miklir vindar gera það að verkum að sjó-
leiðin fyrir Hornhöfða er ein sú hættulegasta í heimi.
Framburður margra áa í miðhluta Chile hefur skilað frjósömum jarðvegi niður á láglendið og gert svæð-
ið tilvalið til margs konar ræktunar. Þar er landbúnaður mestur í landinu. Helstu afurðir eru hveiti, maís
og vínþrúgur. Einnig er talsvert ræktað af ávöxtum og grænmeti. Kvikfjárrækt er talsverð og þá aðallega
nautgripa- og sauðfjárrækt. Skógarhögg er stundað suður af Mið-Chile. Fiskveiðar eru mikið stundaðar í
Chile. Helstu nytjastofnar eru sardínur, makríll og ansjósur, sem er lítill fiskur sem líkist síld. Sjávarafurðirn-
ar eru að mestu seldar sem fiskimjöl og lýsi til Bandaríkjanna og Evrópu og unnar þar í dýrafóður.
Iðnaður í Chile er tiltölulega fjölbreyttur og tengist þeim auðlindum sem finnast í landinu. Verksmiðju-
iðnaður er stundaður í stærri borgum, þar sem framleidd eru t.d. matvæli, heimilistæki, efnavörur, fatn-
aður og annar vefnaður. Í strandborgunum er að finna skipasmíðastöðvar og aðra stóriðju.
Nám verðmætra jarðefna hefur alltaf verið undirstaða efnahags Chile. Stærsta opna náma í heimi,
Chuquicamata-náman, framleiðir meira en fjórðung af öllum kopar í heiminum. Orkulindir landsins
felast í virkjun vatnsafls, kolum og olíu og jarðgasi, sem unnið er á Eldlandi og meðfram norðurströnd
Magellansunds.
Lengd landsins og landfræðileg lega þess koma í veg fyrir að samgöngur innanlands geti talist góðar.
Áður voru flutningar milli landshluta mestir á sjó. Vega- og járnbrautakerfið um miðbik landsins er ágætt
og munar þar mest um Pan-American hraðbrautina sem tengir byggðir milli norður- og suðurhluta
landsins yfir 3500 km vegalengd.
Herstjórn og mannshvörf
Árið 1818 fengu Chilebúar sjálfstæði frá Spánverjum, eftir að þeir síðarnefndu höfðu stjórnað
landinu frá því fyrir miðja 16. öld. Í 155 ár, eða þar til 1973, var lýðræði í landinu, þó með tveimur
undantekningum þar sem stjórnleysi ríkti, í kringum 1830 og 1930. Árið 1973 varð breyting á. Þá
gerði herinn blóðuga byltingu með stuðningi bandarísku leyniþjónustunnar, felldi þáverandi lýð-
ræðislega kjörinn forseta, Salvador Allende, og ofsótti stuðningsmenn hans af mikilli hörku. Her-
foringinn Augusto Pinochet tók við stjórnartaumunum og við tók tímabil einræðis og kúgunar.
Árið 1990 var Pinochet neyddur til að halda lýðræðislegar kosningar og hröklaðist þá frá völdum.
Stjórnartímabil Pinochet einkenndist af mikilli hörku og grimmd í garð pólitískra andstæðinga
hans og hvarf fjöldi fólks sporlaust.
1...,59,60,61,62,63,64,65,66,67,68 70,71,72
Powered by FlippingBook