Um víða veröld – Heimsálfur, kennsluleiðbeiningar - page 68

68
NÁMSGAGNASTOFNUN • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar
Ítarefni
Mexíkó
Áður en Spánverjar hófu innreið sína í Mexíkó í upphafi 16. aldar bjuggu þar um tíu milljónir indíána.
Siðmenning þeirra var ævaforn. Þegar Mexíkó fékk sjálfstæði árið 1810 eftir tæplega þrjú hundruð ára
spænsk yfirráð hafði íbúasamsetningin breyst mikið. Í dag er langstærsti hluti íbúanna af blönduðum
uppruna frumbyggja og fólks af evrópskum uppruna. Mexíkó, sem er fjölmennasta spænskumælandi
þjóð í heimi, hefur lengi átt í deilum við granna sinn í norðri. Þessi stirðu samskipti hafa varpað skugga á
þjóðfélagsþróun í landinu. Um landamærin fer mikill fjöldi ólöglegra innflytjenda frá Rómönsku Ameríku
í leit að vinnu og betra lífi í Bandaríkjunum.
Mexíkó er að stærstum hluta háslétta, enda liggur landið að megninu til í hinum mikla fjallgarði sem
teygir sig eftir öllum vesturhluta Norður-Ameríku. Hálendi Mexíkó er þurrt og þá sérstaklega norður-
hlutinn. Þar eru sums staðar eyðimerkur. Láglendi er að finna við strendur landsins og þá aðallega við
Mexíkóflóa, allt frá landamærunum við Bandaríkin suður til hins láglenda Yucatanskaga. Þar er heitt og
rakt. Frá landamæraborginni Ciudad Juarez til Mexíkóflóa myndar áin Rio Grande náttúruleg landamæri
á milli Bandaríkjanna og Mexíkó.
Í suðurhluta landsins er mexíkóska eldfjallakeðjan. Á 1000 km belti frá vestri til austurs eru mörg virk eld-
fjöll og jarðskjálftar tíðir. Árið 1985 reið jarðskjálfti sem mældist 8,1 á Richter yfir Mexíkóborg sem liggur í
miðri eldfjallakeðjunni. Nærri 10.000 manns létu lífið og meira en 50.000 til viðbótar slösuðust.
Mexíkó er sambandsríki eins og Bandaríkin og Kanada. Þar er 31 fylki auk höfuðborgarinnar, Mexíkó-
borgar. Hún er í um 2200 m hæð yfir sjó og ein fjölmennasta borg í heimi. Þar búa um 23 milljónir. Þar
er umferðaröngþveiti algeng sjón, fátækt áberandi og fjöldi götubarna mikill. Mengun vegna útblásturs
er mikil, sem stafar bæði af háum fjöllum sem umlykja borgina og þunnu lofti vegna hæðar hennar yfir
sjávarmáli. Í borginni er stærsta neðanjarðarlestakerfi í Rómönsku Ameríku, sem flytur daglega um 4
milljónir farþega á milli staða.
Mexíkó er mikið landbúnaðarland, þar sem mest er ræktað af maís fyrir innanlandsmarkað. Á strands-
léttunni við Mexíkóflóa eru stórar kaffi-, sykur- og bómullarplantekrur. Af landbúnaðarafurðum er kaffi
verðmætasta útflutningsvaran. Í þurrum norðurhlutanum er nautgriparækt mikil. Mexíkó hefur lagt sitt
af mörkum til matarmenningar heimsins. Þaðan kemur t.d.
tortilla
,
burrito
,
taco
og
chili con carne,
sem
hefur verið undirstöðufæða í Mexíkó. Maturinn er oft vel kryddaður og þá gjarnan með chilipipar.
Iðnaður er mestur á höfuðborgarsvæðinu, einkum matvælaframleiðsla, vefnaðar- og efnaiðnaður.
Hátækniiðnaður hefur farið vaxandi. Olía og jarðgas er unnið á strönd Mexíkóflóa og skapar það landinu
miklar útflutningstekjur. Mexíkó er einn helsti silfurframleiðandi í heimi. Önnur verðmæt jarðefni sem
fundist hafa eru járngrýti, kopar, gull og blý. Þjónusta við ferðamenn er mikil.
Verkefni
1. Hvaða lönd og höf liggja að Mexíkó?
2. Hvað er helst ræktað í landinu?
3. Hverjar eru helstu iðngreinar í Mexíkó og hverjar eru helstu framleiðsluvörurnar?
4. Hverjar eru helstu náttúruauðlindir í Mexíkó?
5. Segðu frá landslagi, loftslagi og gróðurfari í landinu.
6. Hvað á Mexíkó sameiginlegt við Bandaríkin og Kanada?
7. Hvað heita stærstu borgir Mexíkó og hvar er þær að finna?
8. Hvað hefur Mexíkó lagt af mörkum í matarmenningu heimsins?
9. Hvaða tungumál er talað í Mexíkó?
10. Af hverju gæti stöðugur straumur fólks frá Mexíkó yfir landamærin til Bandaríkjanna stafað?
1...,58,59,60,61,62,63,64,65,66,67 69,70,71,72
Powered by FlippingBook