Birt með góðfúslegu leyfi Ómars Valdimarssonar.
Það var undarlegt andrúmsloftið á flugvellinum
í Rangoon þegar blaðamaður DV var á
leið aftur eftir nokkurra daga dvöl í alræðisríkinu
Burma. Vegabréfið var tekið og hann látinn
bíða í um þrjátíu mínútur
meðan það var ljósritað í bak og
fyrir.
Á svölum brottfararsalarins mundaði leyniþjónustumaður
myndavél, en stakk henni snögglega inn á sig
þegar blaðamaðurinn leit upp til hans. Það
er ekki laust við að hræðsla hafi verið farin
að gera vart við sig hjá undirrituðum. Stuttu
seinna var vegabréfinu skilað og blaðamaðurinn
dreginn inn í bakherbergi þar sem töskurnar hans
voru tæmdar og á honum leitað hátt og lágt.
,,Þar sem þú hefur gerst brotlegur við lög
Burma neyðumst við til að gera allar filmurnar upptækar.
Þú ert ekki velkominn aftur til landsins, sagði
stjörnum skreyttur herforinginn og blaðamaður DV var
leiddur út í rútu sem flutti hann að flugvél
Thai-flugfélagsins á leið til Taílands
...
Ólært, svangt og hrætt
,,Harðstjórarnir vita að á meðan við
fáum ekki að læra, lítið að borða
og erum hrædd leggjum við ekki í byltingu,"
segir maður sem kýs að kalla sig Toni, af ótta
við það sem muni henda hann komist einhver að
því að hann hafi talað við blaðamann.
,,Þeir halda skólum opnum í nokkrar vikur í
senn og verða síðan hræddir við að
eitthvað muni gerast og loka þeim því snögglega
aftur. Ekki alls fyrir löngu voru menntaskólanemar farnir
að mótmæla hörmulegu ástandi í
landinu í skólunum og þeir voru einfaldlega
barðir til hlýðni. Þeir sem ekki hlýddu
voru drepnir, bætir Toni við hryggur.
Breskt nýlenduveldi
Ein grimmasta harðstjórn veraldar ræður ríkjum
í Suðaustur-Asíuríkinu Burma. Fram til
1948 var landið undir nýlendustjórn Breta og á
þeim tíma var það mesti hrísgrjónaútflytjandi
heimsins, en Burma var og er einnig ríkt af ýmsum
náttúruauðlindum svo sem olíu, rúbínum
og öðrum eðalsteinum. Í kjölfar heimsstyrjaldarinnar
síðari fékk landið sjálfstæði
og var undir stjórn forsetans U Nu sem reyndi að koma
á laggirnar stjórnarkerfi sem hann kallaði ,,sósíalískan
búddisma. Árið 1962 hrifsaði vinstri
sinnaði hershöfðinginn Ne Win völdin af Nu og
lokaði hann inni í fangelsi í fjögur ár
á meðan hann reyndi að fara ,,búrmísku
leiðina að sósíalisma". [Í ríkjum
sósíalista er talið að þjóðarauður
og framleiðslutæki eigi að vera sameign þjóðarinnar
og að þörfum allra skuli fullnægt svo jafnræði
ríki. Í ríkjum sósíalista eru
sósíalista- eða kommúnistaflokkar einráðir
og láta sig varða alla þætti mannlegs lífs.]
Win þjóðnýtti allt sem fyrir varð og
lamaði ágætt efnahagslíf landsins.
Það var svo árið 1988 að íbúar
Burma höfðu fengið nóg af harðstjórn
Win og hrörnun landsins. Þeir þustu út á
götur borganna og kröfðust afsagnar hans. Þegar
rúmlega 3000 íbúar landsins höfðu
látist í átökum við herinn lét
Win sér segjast og vék frá völdum. Hvorki
Win né flokkur hans, National Unity Party, voru hins vegar
tilbúnir til að leggja alveg upp laupana. Þeir
fengu því herinn til að ræna völdum
á meðan þeir reyndu að koma ró á
í landinu. Herstjórnin, með hershöfðingjann
Saw Maung í broddi fylkingar, lofaði íbúum
landsins að boðað yrði til þingkosninga í
september næsta ár (1989) ...
Aung San Suu Kyi Óumdeildur leiðtogi stjórnarandstöðunnar
í Burma og handhafi friðarverðlauna Nóbels,
hefur barist ötullega fyrir auknu lýðræði
í heimalandi sínu og þurft að gjalda fyrir
það með frelsissviptingu.
Stjórnarandstaðan sigraði
Þegar loks kom að því að íbúar
Burma fengu að kjósa sér nýja ríkisstjórn
fékk NLD yfir 85% atkvæðanna, þrátt
fyrir að herstjórnin hafi ítrekað breytt kosningalögum
landsins fram á síðustu klukkustund kjördagsins.
Þegar herstjórnin sá hvernig var í pottinn
búið var ákveðið að koma í
veg fyrir að réttkjörnir fulltrúar fólksins
fengju að taka sæti sín í Burmíska
þinginu og flestir félagar í æðstu
stjórn NLD voru handteknir.
Sá leiðtogi stjórnarandstöðunnar sem
hefur verið hvað mest áberandi er áðurnefnd
Aung San Suu Kyi, handhafi friðarverðlauna Nóbels
frá árinu 1991. Hún var mánuðum
saman í stofufangelsi á heimili sínu á
árum áður og hefur nú verið lokuð
inni frá því í september (2000). Blaðamaður
DV fór til Burma í lok desember og ræddi þar
við bæði stjórnarandstæðinga og talsmenn
harðstjórnarinnar, svo og skelkað en vingjarnlegt
fólkið á götum úti ...
Ferð blaðamannsins til Burma var stytt um tvo daga vegna
áreitis stjórnvalda. Á leiðinni út
á flugvöll fylgdu kunnugleg leyniþjónustuandlit
leigubíl hans eftir á vélhjóli. Ekkert
illt má segja eða prenta um harðstjórana sem
hafa kverkatak á ofsahræddum íbúum Burma.
Ekkert má bera út af meðan verið er að
koma á ró í landinu.
Heimild: DV. Ómar Valdimarsson.
|