Fréttir

Samræmdur vitnisburður við lok grunnskóla vorið 2016

Í vor útskrifast nemendur úr grunnskólum landsins eftir nýju einkunnakerfi þar sem bókstafir lýsa hæfni nemenda. Einnig er í vor í fyrsta sinn gert ráð fyrir að skólar skili samræmdum vitnisburði. Þetta er gert til að samræma þær upplýsingar sem nemendur fá á vitnisburðarskírteini við lok grunnskólans á öllu landinu.

Aðalnámskrá grunnskóla leggur línurnar með hvað á að meta en Menntamálastofnun hefur unnið að þróun og hönnun þessa samræmda vitnisburðarskírteinis, því taka þurfti ýmsar ákvarðanir um útfærslur, í samráði við skólasamfélagið og aðra haghafa. Þannig er nú loksins komið heildstætt og samræmt námsmat við lok grunnskóla og leiðbeiningar um samræmda birtingu vitnisburðarins.

Útfærsla Menntamálastofnunar á vitnisburðarskírteini er aðgengileg öllum á Upplýsingavef um námsmat.

Skil einkunna

Skírteini á heimasíðu Menntamálastofnunar er fyrst og fremst dæmi um hvað skuli koma fram á vitnisburði. Mentor og Námfús hafa sína eigin útfærslu af skírteininu sem er með sömu matsþætti og virkni og skírteini stofnunarinnar. Þeir skólar sem eru í viðskiptum við þá eiga að skila sínum vitnisburði í gegnum þeirra kerfi.

Nokkrir skólar eru ekki í viðskiptum við þessi fyrirtæki. Þeir nota skírteini Menntamálastofnunar og skila niðurstöðum beint til stofnunarinnar samkvæmt leiðbeiningum sem þeir fá sendar sérstaklega.

Svör við ýmsum spurningum sem hafa borist og almennar leiðbeiningar um vitnisburðinn er að finna á vefnum Upplýsingavefur um námsmat.

Ef frekari spurningar vakna skal senda þær á [email protected]

Fundur um inntöku nýnema í framhaldsskóla

Fundinum var einkum ætlaður nemendum í 10. bekk grunnskólana og foreldrum þeirra, en margir þeirra kvíða nýju námsmati sem lagt verður til grundvallar innritun þeirra í framhaldsskólana í sumar. Fundurinn var afar nauðsynlegur á þessum tímapunkti, upplýsandi og góður vettvangur fyrir skoðanaskipti. Ljóst er að umræðuefnið brann mjög á fundargestum sem troðfylltu hátíðarsal MH og tóku margir nemendur til máls.

Fundarstjóri var Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri í Garðaskóla, en eftir stutt ávarp formanns SAMFOK, Birgittu Báru Hassenstein, fluttu Birta Björg Heiðarsdóttir, Guðjón Þór Jósefsson og Þórdís Dóra Jakobsdóttir, nemendur í Laugalækjarskóla erindi um hvernig þessi mál snúa að nemendum.

Oddný Hafberg, aðstoðarskólameistari Kvennaskólans í Reykjavík og Lárus H Bjarnason, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð reyfuðu málið frá sjónarhorni sinna skóla. Loks skýrði Kristrún Birgisdóttir, sérfræðingur á Menntamálastofnun eðli nýs námsmat og hvernig það hefði áhrif á inntöku nemenda í framhaldsskólana. Eftir kaffihlé fóru framangreindir í pallborð ásamt fulltrúum allra framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og svöruðu fjölmörgum spurningum.

Frétt á netsamfelag.is

Hér að neðan er upptaka frá fundinum í tveimur hlutum; Fyrir og eftir hlé.

Leiðbeiningabæklingur fyrir skólastjóra og kennara

Útbúinn hefur verið leiðbeiningabæklingur um nýtt námsmat og einkunnagjöf eftir nýjum matskvarða. Bæklingi þessum er ætlað að vera leiðarvísir fyrir skólastjóra og kennara til að auka skilning og auðvelda vinnu við lokamat. Hann er hér aðgengilegur hér á pdf–formi og geta skólastjórar og kennarar prentað hann út og nýtt sér við lokamat 10. bekkjar vorið 2016.

Leiðbeiningabæklingur um nýtt námsmat og einkunnagjöf eftir nýjum matskvarða. Fyrir kennara á unglingastigi

Kynningarbæklingur um nýtt námsmat og innritun í framhaldsskóla

Útbúinn hefur verið kynningarbæklingur fyrir foreldra/forráðamenn og nemendur 10. bekkjar um nýtt námsmat og innritun í framhaldsskóla. Nemendur fá bæklinginn afhentan í skólanum á næstu dögum en einnig má skoða hann sem flettibók (sjá hlekk hér fyrir neðan).

Kynningarbæklingur - flettibók

Kynningarfundur um breytt námsmat - upptaka

Menntamálastofnun hefur staðið fyrir sérstökum kynningarfundum á breyttu námsmati um land allt. Meðfylgjandi er upptaka af kynningarfundi þar sem Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri matssviðs kynnir fyrir kennurum og stjórnendum þær breytingar sem verða við gerð námsmats vorið 2016.

Tímasetningar samræmdra könnunarprófa skólaárið 2016 – 2017

Þær breytingar verða á fyrirkomulagi samræmdra könnunarprófa að þau verða lögð fyrir með rafrænum hætti. Einnig hefur verið ákveðið að halda samræmd könnunarpróf að vori í 9. bekk. Nemendur í 10. bekk skólaárið 2016-2017 munu þreyta próf vorið 2017, sömu daga og 9. bekkur en prófin í 4. og 7. bekk verða haldin haustið 2016.

Tímasetningar

Myndband um nýtt námsmatskerfi

Myndbandið hér að neðan fjallar um einkunnakerfi Svía sem styðst við sömu hugmyndafræði og hið nýja námsmatskerfi sem íslenskir grunnskólar munu nota í fyrsta skipti í vor fyrir 10. bekk. Bæði einkunnakerfin byggja á matsviðmiðum sem lýsa þeirri hæfni sem nemandinn þarf að ná til þess að fá tiltekinn bókstaf. Í myndbandinu, sem Skolverket í Svíþjóð framleiddi til upplýsinga fyrir nemendur og foreldra, spyr nemandi um námsmat og á hverju einkunnagjöfin byggir.
Það er grundvallarbreyting á upplýsingagjöf til nemanda að kennari geti rökstutt einkunn nemanda með því að leggja fram þá lýsingu sem á við nemandann. Með þessu fá foreldrar og nemendur greinargóðar upplýsingar um stöðu nemandans sem og framhaldsskólar sem nemendur sækja um. Gamla kerfið 1-10 gaf ekki upplýsingar um hvaða hæfni lá á bak við hverja einkunn.
Þess má geta að sænska kerfið er með A, B, C, D, E og F til samanburðar við það íslenska sem er með A, B+, B, C+, C og D. Í báðum kvörðum lýsir A framúrskarandi hæfni og F og D fá þeir sem standast ekki matsviðmið sem sett eru fram í aðalnámskrá.

ÍslandAB+BC+CD
SvíþjóðABCDEF

Kynning á nýju námsmati

Sérstakar kynningar á breyttu námsmati standa nú yfir vítt og breytt um landið. Tilgangur þeirra er að kynna væntanlegar breytingar við gerð námsmats. Glærukynning Menntamálastofnunar er nú aðgengileg hér fyrir neðan en hana geta skólastjórnendur og kennarar notað til frekari vinnu eða kynningar innan skólanna. Upptöku af kynningarfundi verður bætt hér við innan skamms.

Glærukynning á PowerPoint

Tímabundin undanþága í tengslum við nýjan einkunnakvarða við lok grunnskóla

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að veita grunnskólum heimild til undanþágu frá því að birta vitnisburð í bókstöfum A-D í þeim tilvikum þegar nemendur stunda ekki nám á tilteknum námssviðum í 10. bekk á yfirstandandi skólaári. Undanþágan gildir til og með vori 2017.

Frétt mennta- og menningarmálaráðuneytis í heild sinni

Dagskrá kynningarfunda um nýtt námsmat

Sérstakar kynningar á breyttu námsmati, sem taka mun gildi vorið 2016, verða haldnar á næstunni. Kynningarnar eru á vegum Menntamálastofnunar í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og eru ætlaðar skólastjórnendum og kennurum 10. bekkja. Fundað verður vítt og breytt um landið og gert er ráð fyrir tveggja tíma fundum þar sem tækifæri gefst til fyrirspurna.

Dagskrá kynningarfundanna

Nýtt námsmat, innritun í framhaldsskóla

Þann 8. janúar hélt mennta- og menningarmálaráðuneytið ráðstefnu sem bar yfirskriftina Nýtt námsmat, innritun í framhaldsskóla. Ráðstefnan var haldin í samvinnu við Skólameistarafélag Íslands og Menntamálastofnun en upptökur af fyrirlestrum auk glærukynninga er nú aðgengilegt hér fyrir neðan.

Upptaka ráðstefnunnar
Nýtt námsmatskerfi við lok grunnskóla- glærukynning
Útskrift 10. bekkjar vorið 2016. Kynning fyrir framhaldsskólann
Ný námskrá, öðruvísi matskvarði