Vitnisburðarskírteini


Um skírteinin

Menntamálastofnun er með staðlað vitnisburðarskírteini til notkunar við útskrift nemenda úr grunnskóla. Tengill inn á skírteinið er meðfylgjandi.

Til athugunar við skráningu vitnisburðar.

Vörsluaðilar eins og Námfús og Mentor eru með útfærslu þessa skírteinis fyrir þá skóla sem þeir þjónusta en öllum er heimilt að nýta sér skírteini Menntamálastofnunar en þá þarf að vista vitnisburðarskírteini hjá skóla.

Tilgangur og notkun vitnisburðarskírteina

Vitnisburðarskírteinið felur í sér skilgreiningar og fyrirmæli um hvernig skuli skila vitnisburði um námsárangur nemenda við lok grunnskóla.

Settar eru reglur um varðveislu á niðurstöðum nemenda og reglur um flutning niðurstaðna frá vörsluaðilum til viðeigandi úrvinnsluaðila.


Nánar um útfærslu vitnisburðarskírteinis

Haus

Vitnisburðarskírteini skal hafa haus þar sem fram kemur nafn og kennitala nemanda og skóla auk ártals.

Námsgreinar/greinasvið

Vitnisburðarskírteinið á að hafa dálk fyrir námsgreinar/greinasvið. Gefa skal vitnisburð á eftirfarandi 10 námsgreinum/greinasviðum með hæfnieinkunnum sem gefnar eru í bókstöfum. Í skírteini skal skrá vitnisburð nemanda í öllu námi sem hann stundaði á lokaári í grunnskóla en æskilegt er einnig að hafa til hliðsjónar nám í 8.-9. bekk. Greinasviðin eru skilgreind í aðalnámskrá. Þau eru sett fram í sömu röð og gert er þar:

 1. íslenska
 2. enska
 3. Norðurlandamál
 4. listgreinar
 5. verkgreinar
 6. náttúrugreinar
 7. skólaíþróttir
 8. samfélagsgreinar
 9. stærðfræði
 10. upplýsinga- og tæknimennt
 11. valgreinar

Vitnisburður

Vitnisburðarskírteinið á að hafa dálk fyrir vitnisburð. Í dálkinn á að færa vitnisburð í viðeigandi greinasviði. Vitnisburðurinn inniheldur í ákveðnum tilvikum ítarlegri upplýsingar um hvað stendur að baki. Undir Norðurlandamálum skal valið það tungumál sem nemandinn stundaði og undir íslensku skal koma fram ef um táknmál eða íslensku sem annað tungumál er að ræða. Sé vitnisburður stjörnumerktur (sjá síðar) eða D skulu koma fram upplýsingar um hæfni sem liggur til grundvallar námsmati. Stundi nemandi ekki nám í Norðurlandamáli af einhverjum ástæðum svo sem ef nemandi er af erlendu bergi brotinn, skal það koma fram: að hann hafi ekki stundað nám í Norðurlandamálum. Ljúki nemandi námi í öðru móðurmáli en íslensku og er með undanþágu frá Norðurlandamálum þá er sett ólokið í Norðurlandamál og viðkomandi tungumál og einkunn sett í skýringar.

Einkunnakvarði á vitnisburðarskírteini

Á ofangreindum námssviðum skal gefa vitnisburð í hæfnieinkunnum. Hæfnieinkunnir eru gefnar í bókstöfunum A, B+, B, C+, C og D. Hver einkunnanna A, B, og C þýðir að hæfni nemanda samsvari viðkomandi matsviðmiði aðalnámskrár. Gefnar eru einkunnirnar C+ og B+ þegar hæfni nemanda er mjög nærri því að ná næsta viðmiði fyrir ofan. Ekki eru sjálfstæð matsviðmið fyrir C+ og B+. Víki námskrá nemanda frá skilgreindum hæfni- og matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla skal merkja vitnisburðinn með stjörnu (*) á vitnisburðarskírteini. Þannig fá nemendur A*, B*, C* eða D* í samræmi við hvernig þeir ná einstaklingsbundnum matsviðmiðum sínum. Hafi nemandi formlega fengið undanþágu frá tilteknum námssviðum vegna sérþarfa þá skal það koma fram á skírteininu. Stjörnumerktar einkunnir auk einkunnarinnar D fela í sér að skrá verður í vitnisburðarskírteini hvað liggur að baki stjörnumerkta vitnisburðinum, þ.e. lýsingu á matsviðmiðinu. Stjörnumerking veitir nemendum sem um ræðir og forráðamönnum þeirra upplýsingar um stöðu nemandans og getur einnig nýst við innritun í framhaldsskólanám við hæfi.

Athugasemdir

Vitnisburðarskírteinið skal hafa svæði fyrir athugasemdir aftan við hvert greinasvið. Á skírteininu þarf að koma fram hvort útbúin hafi verið einstaklingsbundin tilfærsluáætlun um nemendur í samræmi við ákvæði reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla.

Staðfesting

Skólastjóri skal staðfesta skírteinið.