1. Af hverju myndast andstaða milli unglinga og foreldrakynslóðarinnar?
Hvað er hægt að gera til að draga úr henni?
2. Hvernig finnst þér að fullorðnir
ættu að umgangast unglinga? Teldu upp fimm atrið yfir
umgengni þar sem 1 er mikilvægastur, 2 næst mikilvægastur
og svo framvegis.
3. Búðu til dæmi út frá
eftirfarandi fullyrðingu: ,,Stundum getur verið þægilegt
að vera barn því þá losnar maður
undan ábyrgð. Hvaða kostir og gallar geta fylgt
því að vera fullorðinn?
4. Föt eru til að koma í veg fyrir að þér verði of kalt eða heitt,
en þó eru það ekki veðurskilyrðin sem ákvarða hvers konar fötum
þú klæðist. Föt eru einnig tákn og segja öðrum hver við erum eða
viljum vera.
Í einum bekk var rætt um merkjavörur og hópþrýsting. Nína vakti
fyrst máls á efninu vegna þess að henni fannst allt of mörg af bekkjarsystkinum
hennar of upptekin af merkjavörum - það er að fötin eigi að vera
af einhverju ákveðnu merki. Ef buxurnar eru til dæmis ekki með réttan
merkimiða þá á viðkomandi von á að fá neikvæðar athugasemdir og
verða fyrir stríðni. Aumingja Pétur til dæmis, hann mætti í nýrri
peysu í skólann sem honum fannst flott - en öðrum fannst hún hallærisleg
vegna þess að hún var ekki merkjavara. Hann fékk þvílíkar hæðnisglósur
og athugasemdir að hann hefur ekki látið sjá sig í peysunni aftur.
Hvað stýrir vali þínu á fötum og hvers vegna? Hvað er það versta
sem gæti komið fyrir ef þú mættir ekki í réttum fötum í skólann? Hvað eru töff föt og
hvað hallærisleg? Af hverju?
|