Handbók um velferð og öryggi í leikskólum

Öryggishandbók leikskóla 26 5.1.23 Íþróttasalir/hreyfirými Í flestum leikskólum er aðstaða fyrir hreyfingu/íþróttir barna. Aðstaðan er mjög mismunandi. Mikilvægt er að þessi rými séu hönnuð með notagildi í huga því venjulegir salir fyrir leiki og létta hreyfingu eru ekki frábrugðnir öðrum rýmum í leikskólanum. Ef rýmið er ætlað fyrir íþróttir þarf að huga vel að innréttingu og frágangi þess. Í þeim rýmum leikskóla sem notuð eru til hreyfingar barna er mikilvægt að hafa sem minnst af húsgögnum eða öðrum búnaði sem börn geta hlaupið á eða geta fallið yfir þau. Þegar börn eru í hreyfileikjum þarf starfsfólk að vera til staðar og grípa inn í ef börn sýna af sér hættulega hegðun. Hafa skal í huga: • Velja þarf gólfefni sem er framleitt fyrir almenn íþróttarými. • Ef rimlar eru til staðar á að kanna hvort þeir séu tryggilega festir við vegg. • Æskilegt er að nota falldempandi dýnur í íþróttasölum. • Körfuboltakörfur sem hengdar eru á rimla á að fjarlægja eftir notkun. Um er að ræða spjald með netkörfu og aftan á spjaldinu eru krækjur sem hægt er að hengja í rimla eða aðrar festingar á vegg. • Ljós og lampar eiga að vera varin þannig að hlutar þeirra geti ekki fallið yfir börn. Ekki má hafa glerkúpla á ljósum sem geta brotnað í boltaleikjum og fallið yfir börn. Best er að setja upp sérstök ljós með vörn eins og notuð eru í íþróttamannvirkjum. • Skarpar brúnir, gluggakistur og ofnar eiga að vera varin sérstaklega. Hægt er að láta útbúa bólstraðar svampdýnur sem raðað er utan um þessa hluti og þær festar saman með frönskum rennilás. • Myndir á vegg í þessum rýmum skal festa þannig að ekki hljótist hætta af ef bolti eða aðrir hlutir sem notaðir eru rekast í þær. • Allur búnaður sem notaður er, s.s. hringir og boltar, á að hafa upprunalegar leiðbeiningar frá framleiðanda um rétta notkun. Mikilvægt er að búnaðurinn hæfi réttum aldri. Einnig er mikilvægt að leiðbeiningar um viðhald búnaðar séu virtar. • Sippubönd og önnur bönd geta valdið alvarlegum slysum og því mega börn aldrei vera eftirlitslaus þegar þau eru að leik með sippubönd eða önnur bönd. • Rólur, kaðlar og hringir eru tæki sem krefjast virks eftirlits með börnum og þess skal sérstaklega gætt að notaðar séu falldýnur undir tækin meðan á notkun stendur. 5.2 Námsgögn og leikföng Við val á leikföngum verður að hafa í huga að þau hæfi aldri og þroska þeirra barna sem koma til með að nota þau. Mikilvægt er að skoða viðvörunarmerkingar vel og fara eftir þeim leiðbeiningum sem fylgja leikfanginu. Leikföng/leiktæki skulu uppfylla kröfur reglugerðar um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu nr. 944/2014 og vera CE merkt. Starfsfólk leikskóla skal framkvæma reglubundið eftirlit með leikfangi/leiktæki samkvæmt gátlista sem leikskólinn útbýr. Skemmd leikföng skal taka úr umferð. 5.2.1 CE merkingar Leikföng sem ætluð eru börnum yngri en 14 ára eiga að vera CE merkt. CE merking vöru gefur til kynna að varan uppfylli þær lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd sem settar eru fram í Evróputilskipunum. CE merkið er ekki öryggis- eða gæðastimpill heldur til staðfestingar á því að leikfangið uppfylli allar skilgreindar kröfur sem gerðar eru til framleiðslunnar samkvæmt CE staðli.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=