Handbók um velferð og öryggi í leikskólum

Öryggishandbók leikskóla 23 ekki endalaust, það er því mikilvægt að gert sé við þær reglulega. Endingartími klemmuvarna er oft skemmri á útidyrahurðum vegna veðurfarsáhrifa á efnið í þeim. Mikilvægt er að hurðastopparar séu settir upp fyrir ofan hurðina. Varast ber að hafa hurðastoppara við gólf. 5.1.8 Fataherbergi Í fataherbergjum getur plássleysi skapað fallhættu ef fatnaður og ýmis búnaður sem tilheyrir börnum er hafður á gólfinu. Ef háar hillur eru fyrir ofan fatahólf barna myndast hætta á að hlutir falli á börnin þegar verið er að toga hluti niður. Hættan er sérstaklega mikil þegar um mjög þunga hluti er að ræða eins og barnabílstóla eða þungar töskur. Ef hillur eru til staðar fyrir aukabúnað barna þarf að ganga þannig frá að ekki skapist hætta á að hlutir geti fallið yfir börn. Snagar fyrir fatnað og annað verða að vera öruggir þannig að þeir geti ekki skaðað börn. Dæmi um örugga snaga eru snagar sem eru varðir og skaga ekki fram fyrir hillu. Einnig eru til plastsnagar sem eru hengdir neðan í hillur í fataherbergjum, þeir snúast þannig að ef barn dettur á þá meiðist barnið síður. Fjarlægja þarf snaga sem skapa hættu á slysi eða eignartjóni. 5.1.9 Upplýsingatöflur Staðsetning á upplýsingatöflum í fataherbergjum eða á göngum skiptir máli þegar kemur að öryggi yngri barna. Gæta þarf þess að teiknibólur séu ekki notaðar eða litlir segulkubbar sem passa í kokhólk. 5.1.10 Þurrkskápar Ef þurrkskápar eru staðsettir í fataherbergjum eða í herbergjum sem börn hafa auðvelt aðgengi að skal gæta þess að þeir hitni ekki mikið að utan svo að börn brenni sig ekki á þeim við snertingu. Ef skápur hitnar mikið að utan þarf að koma honum fyrir í rými sem börn hafa ekki aðgang að. Þurrkskápar eiga að vera festir við vegg, sérstaklega á jarðskjálftasvæðum þar sem skáparnir eru þungir og geta veitt börnum og starfsfólki alvarlega áverka. Gæta þarf að því að rafmagnssnúrur þurrkskápa liggi ekki niðri við gólf á gönguleiðum. Ef rafmagnssnúra úr þurrkskáp er á gönguleið þarf að koma henni þannig fyrir að hún valdi ekki falli. 5.1.11 Bekkir Öruggast er að bekkir séu festir við gólf til að koma í veg fyrir að þeir falli yfir fætur barna. Mikilvægt er að gæta þess að ekki myndist hættulegt bil á milli veggjar og bekkjar. Mesti þunginn í bekkjum er að ofan en það gerir þá oft og tíðum valta. 5.1.12 Opnanleg fög Mikilvægt er að opnanleg fög sem eru í hæð barna séu með öryggislæsingu. Öryggislæsingin verður að vera stillt með þeim hætti að gluggaopið sé ekki meira en 9 cm. Velja þarf stormjárn sem ekki eru hættuleg börnum. Varast ber stormjárn með skörpum brúnum. Í sumum byggingum eru gluggar notaðir sem neyðarútgangar. Opnanlegu fögin á þeim eru stór og verða að hafa læsingu sem auðvelt er að opna ef koma þarf fólki út úr brennandi húsi. Vandamálið við þessa neyðarútganga/glugga er að börn eiga oft auðvelt með að opna læsingarnar og því ákveðin hætta á að þau fari eða detti út. Gæta þarf að bæði öryggissjónarmiðin séu gildandi í slíkum gluggum, þ.e. að notuð sé læsing sem auðvelt er að opna en að hún sé þannig úr garði gerð að yngri börn geti ekki opnað hana. Í byggingum með gluggum sem ná niður á gólf og þar sem aðgengi barna að þeim er auðvelt skal setja öryggisgler.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=