Líf í ströngum skorðum
Svo er að sjá sem
líf fólks sé í mjög ströngum skorðum. Deginum er skipt í ákveðna
kafla sem hver um sig er ætlaður ákveðnum athöfnum. Það á að fara
til bakarans eða í búðina á ákveðnum tíma, tala við börnin
eða maka sinn á ákveðnum tíma, slá blettinn o.s.frv. Enginn getur haft neitt
á móti því að fólk skipuleggi tíma sinn vel og noti hann af skynsemi.
En oft gleymist að svona tímastjórnun gerir fólk að vélmennum. Tíminn
er fugl sem flýgur hratt og það gerir lífið líka. Tíminn og lífið
ná engu samræmi með því að búa til kaflaskiptingu eins og hér er
lýst heldur verður að líta á hvort tveggja sem samofið ferli.
Oft má heyra dönsk hjón segja: „Við viljum gjarna halda helginni lausri, við ætlum
að ræða við börnin okkar.“ Konan segist vilja vera með manni sínum, börnin
og eiginmaðurinn segja það sama. En þó að vinnudagurinn sé þrælskipulagður
er alveg hægt að koma þessu við og ekki nauðsynlegt að ráðstafa heilum helgum
eingöngu fyrir sjálfan sig.
Um skuldir
Mér sýnist andúð
Dana á því að vera einhverjum skuldbundinn oft koma greinilega í ljós þótt
um smámuni sé að ræða, t.d. að taka við eplum frá nágranna sínum.
Ónýtu eplin í Hvilsager segja sína sögu um það hvað tíminn
er fólki dýrmætur. Þau gefa líka til kynna hvað fólk hefur mikla andúð
á því að skulda öðrum.
Eplin
Ég ætla að segja
söguna um eplin í Hvilsager með orðum Poul Pedersens:
„Dag nokkurn þegar við komum gangandi frá Hvilsager þar sem Prakash býr gengum við
framhjá garði þar sem eplatré stóð alveg út við veginn. Undir eplatrénu
lágu ósköpin öll af eplum beggja vegna girðingarinnar. „Af hverju eru eplin látin
liggja hérna og rotna?“ spurði Prakash og bætti við: „Á Indlandi myndi fólk
borða eplin, enda eru þau matur.“ Ég hugsaði mig um andartak og sagði svo að í
gnægtasamfélagi eins og okkar væri enginn sem kærði sig um epli sem hafa dottið
af trjánum. Prakash tók upp eitt epli og spurði: „Er þjófnaður að taka eitt?“
„Nei, epli sem detta niður utan girðingarinnar á enginn og þú getur tekið eins
mörg og þú kærir þig um,“ svaraði ég.
Þessi atburður varð kveikja frekari rannsókna á eplum í Danmörku. Fólk
vill frekar láta epli sem detta af trjánum rotna í moldinni en bjóða þau
nágrönnum sínum eða öðrum sem ekki eiga eplatré. Einhver sagði að
fólk vildi ef til vill gefa eplin en það væri enginn sem vildi þiggja þau. Fólk
vill ekki þiggja án þess að borga. Það sem maður tekur við á að
borga, þess vegna er best að þiggja ekkert.
Það er þó til fólk sem tínir upp epli sem detta af trjánum og býr
til saft og sultu, en það eru ekki margir. Rökstuðningurinn er sá að það
er meira upp úr því að hafa að vinna í verksmiðju eða á skrifstofu
þann tíma sem það tæki að tína upp eplin. Launin má svo nota til
að kaupa saft og sultu í stórmarkaðnum.
Vinátta
Ég spurði mann nokkurn
í þorpinu af hverju hann hefði svona lítið samband við nágranna sinn sem
vinnur í sömu verksmiðju, meira að segja í sömu deild.
Svar hans var: „Jú, jú við erum samstarfsmenn en við höfum ekkert samband nema í
vinnunni. Utan vinnutíma á ég mína vini og hann sína.“ Hann sagði líka
að Danir hefðu yfirleitt lítið félagslegt samneyti við samstarfsfólk sitt
utan vinnutíma heldur ætti aðra vini og kunningja.
Afskiptasemi
Oft má heyra fólk
segja að það kæri sig ekki um að umgangast nágranna sína af því
að það gæti bara orðið til þess að upp kæmi misskilningur og vandræði
síðar. Að mati þessa fólks er hætt við að menn fari að forvitnast
hver um annan þegar kynnin verða nánari. Í samfélagi þar sem spurning eins
og „Hvað á hann nágranni þinn stórt land?“ þykir bera merki um forvitni og
spurningunni „Hvað hefur konan þín í laun?“ er svarað með „Veit ekki, þú
skalt spyrja hana,“ getur hvert orð sem sagt er stofnað til tortryggni. Ef til vill verður að hugsa
sig um tvisvar áður en yrt er á nokkurn mann.
Unglingarnir og skólinn
Frá því hefur
þegar verið sagt að í dönskum sveitaþorpum er ekki margt ungt fólk af því
að unglingar fara að heiman til að vinna eða mennta sig þegar þeir verða 18 ára.
En þegar ungmennin fara úr þorpinu slokknar lífsneistinn. Margir af íbúum
Hvilsager eru sammála um að unglingarnir hafa alltaf styrkt tengsl milli fjölskyldna. Áður
fyrr áttu unglingarnir þátt í því að fjölskyldur sem fluttu í
þorpið gátu stofnað til kynna við heimamenn.
Þegar þorpsskólarnir voru lagðir niður og héraðsskólarnir stofnaðir
í staðinn skapaðist ákveðið tómarúm í samfélaginu í
sveitaþorpinu.
„Svona eru Danir!“ 1 | 2
| 3 |