Að flytja að heiman
Þegar ungmenni verður
18 ára og hefur lokið skólagöngu er tímabært að flytja að heiman. Sumir
fara í starfsnám af einhverju tagi, aðrir í háskóla. Enn aðrir fara
strax út á vinnumarkaðinn.
Hvað finnst foreldrum og börnum
um aðskilnaðinn?
Er þetta ekki erfiður
tími fyrir fjölskyldurnar? Ég held að mér þætti það, enda kem
ég úr indversku samfélagi. Á Indlandi er ungt fólk sem hefur gengið menntaveginn
háð foreldrum sínum í einu og öllu þar til það hefur fengið vinnu.
Í sveitum vinna bæði börn og unglingar alls kyns launavinnu allan daginn eða hluta úr
degi. Unga fólkið býr samt lengi í foreldrahúsum, jafnvel eftir að það
er gift.
Á Indlandi þykir eðlilegt að börn og unglingar séu háð foreldrum sínum
í æsku og foreldrarnir búi síðan í skjóli barna sinna í ellinni.
Þótt synirnir stofni eigið heimili þegar fjölskylda barnæskunnar er ekki lengur
til staðar skilja þeir í rauninni aldrei við foreldra sína. Foreldrarnir búa
hjá þeim sona sinna sem þau kjósa. Það veldur foreldrum miklu hugarangri ef
synirnir geta ekki annast þau í ellinni og sonunum finnst þeir vera að bregðast foreldrum
sínum ef þeir geta það ekki.
Mig langaði til að gera mér grein fyrir tilfinningum foreldra og barna í dönskum fjölskyldum
þegar unga fólkið flytur úr foreldrahúsum. Ég ræddi við margar
mæður og nokkra unglinga. Dæmigert svar mæðranna var: „Nei, okkur leiðist ekki að
unga fólkið flytur að heiman. Það er því sjálfu fyrir bestu.“ Sumar
sögðu jafnvel að þeim þætti það alveg prýðilegt, foreldrarnir
fengju þá betri tíma fyrir sig sjálf og fjármál heimilisins yrðu auðveldari
viðfangs. Þótt þær neituðu því að þeim þætti
miður þóttist ég sjá hryggð og sársauka í andlitsdráttum
þeirra.
Unglingarnir, einkum piltarnir, sögðu með áhersluþunga að þeir vildu endilega
komast undan valdi foreldra sinna um leið og þeir yrðu 18 ára. Nokkrir tóku fram að
þeir flyttu að heiman vegna þess að þeir vildu ekki láta foreldrana stjórna
sér og vaka yfir hverju fótmáli. Hins vegar sögðu margar stúlknanna að
þær vildu gjarna flytja að heiman en að þær tækju það nærri
sér. Nokkrar stúlkur sögðu að ef þess væri kostur vildu þær
gjarna búa hjá foreldrum sínum þar til þær giftu sig.
Dætur og foreldrar
Svo virðist sem foreldrar
beri meiri umhyggju fyrir dætrum sínum sem flytja að heiman en sonunum. Synirnir sem eru fluttir
að heiman taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þeir finna sér kærustu
og ákveða hvort þeir fara í sambúð. Dæturnar virðast vera í
nánara sambandi við foreldrana og ráðfæra sig við þá. Yfirleitt leggja
foreldrar meiri áherslu á að hitta tilvonandi tengdasyni sína en tilvonandi tengdadætur.
Margar mæður virtust gjarna vilja kynnast ungu mönnunum áður en dæturnar tækju
saman við þá.
Margir Dananna voru sammála því að dæturnar haldi reglulegra sambandi við foreldra
sína en synirnir eftir giftinguna. Margt aldrað fólk á elliheimilum sagði að dæturnar
kæmu oftar í heimsókn en synirnir. Foreldrar eru líka stoltari yfir árangri dætra
sinna í lífinu en sonanna. Margir foreldrar segja að það sé auðvelt fyrir
karlmenn að öðlast frama því karlmenn séu ráðandi í dönsku
samfélagi. Þegar öll börnin eru flutt að heiman laga foreldrarnir sig smám saman
að lífinu án þeirra. Foreldrarnir hafa þá meira fé milli handanna,
fara í ferðalög, nota meiri tíma með gæludýrum sínum o.s.frv.
Þegar börnin eru flutt að heiman geta hjónin oft veitt sér ýmislegt sem þau
hefur lengi langað til að gera, farið á tungumálanámskeið, saumanámskeið
o.fl., oftast á kvöldin.
Ef sonur eða dóttir vill búa áfram með foreldrum sínum er aðeins ein leið
fær, að láta vera að gifta sig. Jafnskjótt og sonurinn kemur heim með kærustu
til að búa með henni verður annaðhvort hann – eða foreldrarnir – að flytja.
Ég heyrði t.d. um konu nokkra og son hennar sem var 35 ára. Þau bjuggu saman. Fyrir einu
ári kom sonurinn heim með kærustu og móðirin flutti samstundis inn í annað
hús sem hún keypti. Undir venjulegum kringumstæðum hefði sonurinn flutt með kærustunni.
Í þessu tilviki háttaði svo til að sonurinn rak búið og var auk þess
í hlutastarfi í þorpinu. Þótt býlið og rekstur þess væri
skráð sem eign móðurinnar þótti henni rétt að taka tillit til aðstæðna
og lét syni sínum húsið eftir af því að það var nær vinnustað
hans.
Konan sagðist hafa flutt vegna þess að í fyrsta lagi vildi hún ekki blanda sér
í hjónabandsmál sonar síns. Í öðru lagi sagði hún að
það hefði verið eina leiðin til þess að lenda ekki í illdeilum við son
sinn og tengdadóttur.
„Svona eru Danir!“ 1 | 2
| 4 |