„Svona eru Danir!“ – 1

Hér eru birtir nokkrir kaflar úr bókinni Svona eru Danir.
Höfundur bókarinnar er indverski mannfræðingurinn G. Prakash Reddy sem oft hefur heimsótt Danmörku til að rannsaka lífsmáta Dana.

G. Prakash Reddy, forlagið Grevas 1992.


Mannfræðingar vinna við að rannsaka lífshætti fólks, fjölskyldumynstur, venjur, hefðir o.s.frv. Algengast er að mannfræðingar úr iðnríkjunum fari á stúfana til að rannsaka þjóðir annars staðar í heiminum. En einnig kemur fyrir að þetta snýst við. Í þessu tilviki er indverski mannfræðingurinn að rannsaka lífsmáta Dana.


Upphafið
21. júní árið 1989 sótti María Rytter mig til Árósa til vinar míns, Niels Sørensen. María er danskur mannfræðingur og kvikmyndagerðarmaður og hún ætlaði að aka mér til þorpsins þar sem ég átti að búa.
Þetta var um þrjátíu kílómetra leið og ég var spenntur og eftirvæntingarfullur. María fann það greinilega, því hún spjallaði glaðlega til að reyna að fá mig til að slaka á. Daginn áður hafði Poul Pedersen kynnt mig fyrir þessari dásamlegu, hjartahlýju konu á eina veitingastaðnum í Árósum sem seldi indverskan mat. Maturinn var ekki góður, en í Maríu eignaðist ég nýjan vin og hjálparhellu. Hún var komin alla leið frá Óðinsvéum til að koma mér fyrir í þorpinu af því að Poul þurfti að sinna öðrum mikilvægum verkefnum þennan dag.

Þegar við höfðum ekið í 40 mínútur komum við auga á vegarskilti með nafni þorpsins. Húsið sem gestgjafar mínir búa í stendur við veginn einn og hálfan kílómetra norður af þorpinu Hvilsager. Ég bað Maríu að aka um þorpið svo ég gæti litast um í fyrsta sinn. Það voru óttaleg vonbrigði. Ég kem frá Indlandi og ólst upp í sveitaþorpi. Ég á því að venjast að fólk sé á ferli í sveitaþorpum, fólk á götunum, fyrir utan húsin sín, á ökrunum og á opinberum stöðum. Í þessu sveitaþorpi var ekki sála á ferli og allt hljótt utan það að einn bíll ók framhjá okkur. Allar dyr voru lokaðar og ég var farinn að efast um að þarna byggi fólk. En ég dáðist að því hvernig húsin stóðu í snotrum röðum meðfram hreinum götunum og snyrtilegum blómstrandi görðunum. Þetta var gjörólíkt indversku sveitaþorpi. María sá vonbrigði mín og sagðist skilja hugsanir mínar, ekki fyrir það að hún þekkti til indverskra sveitaþorpa heldur vegna þess að hún hafði búið í Afríku í þrjú ár. Ég lét mér nægja að brosa og kinka kolli.

Nokkrum mínútum síðar fundum við hús gestgjafa minna. Það var ólíkt venjulegum dönskum húsum, glæsilegt hús umlukið háum trjám. Þegar bíllinn ók upp að húsinu kom miðaldra maður á móti okkur. Hann hélt á garðverkfærum. Ég hugsaði með mér að sennilega væri þetta garðyrkjumaður húseigenda. Maðurinn sagðist hafa átt von á okkur um hádegisbil en herbergið væri tilbúið svo þetta væri allt í lagi. Hann tók töskuna mína og gekk heim að húsinu. Mér datt ekki annað í hug en hann væri í þjónustu húseigenda úr því að hann vildi bera töskuna. En á augabragði voru þær ranghugmyndir leiðréttar. Maðurinn sýndi mér herbergið mitt og sagði að ég skyldi notfæra mér öll þægindi hússins. Nokkrum mínútum síðar kom konan hans og heilsaði upp á okkur. Bæði töluðu þau ensku reiprennandi. Maðurinn sagði mér að þau hjónin byggju ein í húsinu. Hann heitir Knud P. Petersen, er verkfræðingur og rithöfundur og var áður kennari í Arkitektaskólanum í Árósum. Kona hans, Luise Pihl, er bókaútgefandi og þýðandi. Ekki leið á löngu þar til María var búin að komast að því að hún þekkti til fjölskyldunnar sem hafði búið í nágrenni við fjölskyldu Maríu þegar hún var barn.


Annarri hugmynd skaut upp í kollinum á mér þegar ég hafði skoðað þetta myndarlega hús. Mér fannst eigendur þess hljóta að vera forríkir. En það reyndist líka rangt. Húsið geymdi engu að síður mikla fjársjóði, þar voru mörg þúsund bækur um fjölbreytt efni, allt frá aðskilnaðarstefnu til kjarnorku.

Þegar ég hafði komið mér fyrir á nýja heimilinu mínu var næsta verkefni að fara og kaupa mat og aðrar nauðsynjavörur. María og gestgjafar mínir óku mér í stórmarkaðinn í Termestrup, þriggja kílómetra leið.


Þegar við ókum til baka bað ég Maríu um að aka aftur um þorpið í von um að sjá fólk á götum úti. Aftur varð ég fyrir vonbrigðum og missti móðinn. Ég velti því fyrir mér hvernig hægt væri að gera mannfræðilega vettvangsrannsókn þar sem ekki virtist nokkra manneskju að finna. Mér fannst eins og ég hefði valið yfirgefinn stað og datt í hug að ég yrði sennilega fyrsti mannfræðingurinn í sögunni sem ynni sér það til frægðar að rannsaka mannlaust þorp.

Sóknarpresturinn
Ég kom næst í þorpið klukkan tvö síðdegis daginn eftir. Þá gekk ég þangað með Maríu og þremur ungum mönnum frá kvikmyndafyrirtæki sem ætlaði að láta gera mynd um danskt þorp eins og það kom mér fyrir sjónir. Enn voru göturnar auðar og húsdyrnar lokaðar. Það var óvenju heitt og ég var þyrstur og langaði í bjórkollu eða að minnsta kosti vatnsglas. Einn ungu mannanna sagði: „Hér er ekki einu sinni kaffihús...“ Ég stakk upp á því að við berðum að dyrum í einhverju húsanna og bæðum um vatn að drekka eins og alsiða er á Indlandi. Mér fannst líklegt að samferðamönnum mínum þætti þetta góð hugmynd. En það varð ekki úr því. Í sömu andrá kom hávaxinn, grannur maður hjólandi á móti okkur. Þegar hann nálgaðist okkur steig hann af baki, rétti mér höndina og sagði: „Ég býst við að þú sért Reddy prófessor. Ég er Lars Nymark sóknarprestur hér í þorpinu.“ Hann rétti samferðafólki mínu líka höndina. Ég varð mjög glaður, ekki aðeins vegna þess að hér varð fyrir mér fyrsta lífsmarkið í þorpinu, heldur líka vegna þess að Poul hafði sagt mér að sóknarpresturinn ætti að vera tengiliður minn og það væri presturinn sem hefði komið á sambandi við gestgjafa mína. Í ákafa mínum að finna fólk í þorpinu hafði ég alveg gleymt prestinum. Við fórum heim til hans og þáðum kaffibolla og kaldan bjór. Presturinn hafði einmitt verið heima hjá mér til að bjóða mér til Jónsmessuhátíðar 23. júní. Hann sagði að þar myndi ég hitta flesta þorpsbúa. Hann sannfærði mig brosandi um að það byggi fólk í þorpinu Hvilsager.



„Svona eru Danir!“
2 | 3 | 4
Til baka á upphafssíðu