Þorpsbúum heilsað
Tveimur dögum eftir Jónsmessusamkomuna
kom ungur maður til liðs við mig sem túlkur. Pilturinn heitir Jakob Krause Jensen og er nemandi
við Mannfræðistofnun háskólans. Okkur kom saman um að snjallræði væri
að fara í heimsókn á öll heimilin í þorpinu, heilsa upp á fólkið
og kynna okkur. Fyrst fórum við heim til prestsins með það í huga að biðja
hann að koma okkur í samband við fólkið. Presturinn sagði okkur að allir þorpsbúar
vissu um rannsóknarverkefni mitt af því að Poul Pedersen hefði skrifað um það
grein í þorpsblaðið. Auk þess sagði presturinn mér að hann væri
búinn að ræða við þorpsbúa um mig og þeir ættu von á mér.
Hann taldi best að ég færi um þorpið án hans. Þessu vorum við Jakob
sammála og við ákváðum að kanna hvað biði okkar.
Við kynnum okkur
Þar sem allir þorpsbúar
vissu að ég dvaldist í þorpinu og af hverju ég var þar átti ég
von að á fólk tæki vel á móti okkur þegar við birtumst í
dyragættinni. Ég hafði líka hitt marga á Jónsmessusamkomunni. En klukkutíma
síðar, þegar ég var búinn að koma í nokkur hús, áttaði
ég mig á því að ég hafði rangt fyrir mér. Fólk horfði
svipbrigðalaust á mig þegar ég knúði dyra og ég neyddist til að kynna
mig með eftirfarandi ræðu:
„Ég er Prakash, prófessor í mannfræði frá Indlandi. Ég er hér
í þorpinu til að kynna mér menningu ykkar og lífshætti og ég þarf
á aðstoð þinni og fjölskyldu þinnar að halda ef verkefnið á að
takast vel. Ég er að byrja núna í dag og ætla að fara um þorpið og
heilsa upp á alla.“
Jakob þýddi á dönsku. Allan tímann sem ég talaði og Jakob þýddi
stóð húsráðandi og starði spyrjandi á okkur. En svo sagði hann allt
í einu: „Já ég veit þetta, vertu velkominn.“ Ég velti því fyrir
mér hvers vegna fólkið stóð og starði spyrjandi allan þennan tíma
úr því það vissi hvert erindi mitt var. Ég kom frá Indlandi þar
sem allir gestir vekja forvitni þorpsbúa. Fólk á Indlandi þyrpist í kring
um gesti sína og spyr þá spjörum úr. Enn forvitnara verður fólk ef gesturinn
er útlendingur og ef þorpsbúar vita að gesturinn ætlar að dveljast um stund.
Margir myndu rétta gestinum hjálparhönd og finna honum gististað. Mér fannst þessar
móttökur heldur kuldalegar í upphafi.
Þjófar eða Vottar
Jehóva
Á nokkrum stöðum
neitaði sá sem opnaði dyrnar að hleypa okkur inn þrátt fyrir kynninguna. Við
ætluðum að heimsækja Knud Bech, öldunginn í þorpinu, en hann hafði ég
hitt á Jónsmessusamkomunni. Gift dóttir hans var í heimsókn og opnaði þegar
við knúðum dyra. Þegar ég hafði kynnt mig eins og venjulega og sagt að ég
vildi gjarna fá að tala við föður hennar neitaði hún því með
áherslu og kom með alls kyns afsakanir. Ég missti þolinmæðina og sagði henni
að ég hefði hitt föður hennar og að hann hefði sjálfur boðið okkur.
Svipurinn á henni sagði mér að hún hefði enga trú á þessu.
Samt bað hún okkur að bíða og fór inn til að ráðfæra sig
við föður sinn. Hann kom sjálfur út og bauð okkur inn.
Við afþökkuðum boð hans kurteislega af því að við höfðum ætlað
okkur að fara í nokkur hús í viðbót, en við ákváðum að
koma aftur næsta dag. Þegar við vorum að fara bað dóttir hans okkur afsökunar
og sagði að hún hefði ekki vitað um mig. Þegar ég kynntist Knud Bech betur
sagði dóttir hans mér að hún hefði haldið að við værum annaðhvort
innbrotsþjófar eða Vottar Jehóva.
„Svona eru Danir!“ 1 | 3
| 4 |