Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

Inngangur að kennarahandbók Kynferðislegt og annað kynbundið ofbeldi hefur löngum fylgt mannlegu samfélagi en fremur nýlega fór loks af stað umræða um þann umfangsmikla og skaðlega samfélagsvanda. Á skömmum tíma hefur skapast menning í okkar heimshluta fyrir því að brotaþolar opni sig, skili skömminni og kalli gerendur sína til ábyrgðar. Samkvæmt gögnum Stígamóta til áratuga eru 70% brotaþola kynferðisofbeldis, sem leita til samtakanna, undir 18 ára aldri við fyrsta brot. Oft er gerandi ofbeldisins á svipuðum aldri og brotaþolinn, en 60% gerenda er undir þrítugu. Hvergi er því að finna stærra samansafn bæði þolenda og geranda kynferðisofbeldis en í skólum landsins. Kynbundið ofbeldi er því sannarlega viðfangsefni skólakerfisins. Til mikils er að vinna með að ná snemma til ungra brotaþola og styðja í átt að betri líðan. Enn frekari ávinningur felst þó í því að ná til gerenda og mögulegra framtíðargerenda snemma og reyna að stýra þeim frá því að beita ofbeldi, en eingöngu þannig verður kynferðisofbeldi upprætt. Nær allir gerendur ofbeldis voru eitt sinn nemendur í skóla og margir eru enn, svo borðleggjandi næsta skref í baráttunni gegn ofbeldi er að efla skólana. Skólaumhverfið þarf að vera öruggt svo ungir brotaþolar telji sér fært að sækja þangað eftir aðstoð, en ekki síður geta skólar haft áhrif á nemendur sína til framtíðar með fræðslu og forvörnum gegn skaðlegri hegðun, viðhorfum og orðræðu. Árið 2020 var samþykkt á Alþingi ályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Í áætluninni segir að samfélagsvandinn verði upprættur með samstilltu átaki, byggðu á djúpstæðum skilningi á kynbundnu ofbeldi. Því skuli tryggja þekkingu skólastarfsfólks á forvörnum, fræðslu og viðbrögðum. Þessi kennarahandbók er ætluð sem tól í átt að því markmiði. Höfundar bókarinnar sinna kennslu í kynjafræði, kynfræðslu og ofbeldisfræðslu í skólum og víðar; og koma að margs konar verkferlum varðandi forvarnir og viðbrögð skóla í ofbeldismálum. Öll sitja í stjórn félags kynjafræðikennara á Íslandi. Starfsfólkið verður að vita hvað það þýðir að vera þolendavænn skóli en röng nálgun í þessu krefjandi viðfangsefni skilar líklega litlu til nemenda og getur í versta falli valdið brotaþolum enn meiri skaða og vanlíðan. Þetta skilja kennarar og leggja því margir alls ekki í umræðuna. Grundvöllur þess að hvers kyns aðgerðir skóla gegn kynferðisofbeldi skili sér á gagnlegan hátt til nemenda er þekking starfsfólksins á umfangi, afleiðingum, eðli og ólíkum birtingarmyndum kynbundins ofbeldis. Fræðslu um ofbeldi, jafnrétti, samskipti, kynlíf, mörk og samþykki verður að flétta formlega inn í kennslu, félagslíf, forvarnir og menningu hvers skóla. Skólar skyldu þekkja nauðsyn þess að flétta saman ofbeldisfræðslu, samþykkismiðaða kynfræðslu og kynjafræðikennslu. Því kynbundið ofbeldi verður ekki til í tómarúmi heldur á rætur í valdatengslum og ríkjandi samfélagsviðhorfum. Kennarar þurfa að þekkja hvernig síaukin klámneysla ungmenna hefur áþreifanleg áhrif á samskipti kynjanna, kynferðisofbeldi og viðhorf til kvenna og jaðarhópa. Kennsla, áætlanir og verkferlar skóla verða að byggja á ríkri þekkingu og miða að því að takast á við kynferðisofbeldi á áfallamiðaðan og brotaþolavænan hátt. Bókin gefur hugmyndir að nemendaverkefnum, viðeigandi orðalagi og gagnlegum umræðupunktum í skólastofunni. 5 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 |

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=