Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

23 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Kynlífshandrit Til að ná betur utan um hugmyndina um kynlífsmenningu hafa margir nýtt sér hugtakið kynlífshandrit. Það vísar til þess að í kynlífsmenningu á hverjum stað og hverjum tíma sé ríkjandi forskrift að því hvernig fólk skuli haga sér í kringum kynlíf. Þetta eru ráðandi væntingar um hvað leiðir að kynlífi, hvað er gert á meðan á kynlífi stendur og eftir að kynlífi lýkur. Handritið hefur viðmið um hver gegnir hvaða hlutverki, hver má gera hvað, hvernig og með hverjum, auk hugmynda um æskilegt útlit. Handritið er ekki fastmótað og sama handrit á ekki við um alla. Viðmiðin geta m.a. verið ólík fyrir konur, karla og kvára; hinsegin fólk og sískynja gagnkynhneigt fólk; ófatlaða og fatlaða; eldri einstaklinga og yngri; sem og aðra hópa innan samfélagsins. Kynlífshandritið er því á sama tíma persónulegt og afurð menningar sem einstaklingur elst upp í. Ráðandi kynlífshandrit endurspeglar staðalmyndir kynjanna og heftir þannig kynfrelsi á ýmsa vegu. Lífseigar væntingar innan handritsins eru t.d. þær að konur hafi síður áhuga á kynlífi og eigi ekki að hafa frumkvæði en karlmenn eigi alltaf að vera til í tuskið og séu stöðugt að hugsa um kynlíf. Í samfélaginu leynast ýmis skilaboð sem hvetja karla til að vera virkir kynferðislega en gera ráð fyrir að konur séu það ekki. Þessar fyrirframgefnu hugmyndir samfélagsins setja pressu á fólk um að haga sér í kynlífi samkvæmt kyni en ekki persónulegum áhuga. Samkvæmt íslenskri rannsókn frá 2018, á ríkjandi kynlífshandriti fyrir ungmenni sem stunda gagnkynhneigt kynlíf, er gjarnan sú krafa að strákar eigi að sækjast eftir kynlífi en hlutverk stelpna sé að samþykkja eða afþakka kynlífið. Strákar hafa frekar leyfi til að prófa sig áfram og eiga marga bólfélaga, án þess að það bitni á orðspori þeirra því það þykir karlmannlegt að hafa mikla reynslu á kynlífssviðinu. Stelpur verða hinsvegar frekar fyrir druslustimplun ef þær eiga marga bólfélaga og halda sig ekki innan hins kvenlega ramma. Bæði stelpur og strákar finna beinan og óbeinan þrýsting um að byrja að stunda kynlíf og um að prófa nýjungar í kynlífi. Þrýstingurinn kemur frá orðræðunni og dægurmenningunni en ekki síst frá strákum. Bæði stelpur og strákar finna fyrir pressu til að standa sig gagnvart strákahópnum. Strákar upplifa pressu um að missa sveindóminn og deila reynslu sinni, þeir sækjast meðvitað og ómeðvitað eftir viðurkenningu frá hópnum. Stelpurnar upplifa þrýsting frá strákum og í gegnum samfélagsmiðla og „sexting“, þær sækjast eftir viðurkenningu með því að þóknast strákunum. Þegar kemur að umræðu um kynlíf eða ef farið er í kynlífsleiki kemur í ljós að strákarnir hreykja sér fremur af mikilli eða fjölbreyttri kynlífsreynslu en stelpurnar leitast við að draga úr þegar þær segja frá. Bæði kynin reyna að uppfylla væntingar samfélagsins, með að gangast upp í þeirri forskrift sem er ríkjandi hverju sinni um „eðlilega“ kynlífshegðun. Íslenskar rannsóknir benda til þess að kynferðiseinelti sé ekki mætt af sömu festu meðal kennara og aðrar tegundir eineltis. Þvert á móti sé það iðulega hunsað, afsakað eða útskýrt með hormónaflæði unglingsáranna og teljist eðlilegur hluti af samskiptum ungmenna. Ekki aðeins kvarta þolendur undan aðgerðaleysi skólastarfsfólks, heldur segja það sumt jafnvel taka þátt í eineltinu með niðrandi athugasemdum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=