Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

24 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Karlmennskan getur verið skaðleg Gagnkynhneigðir sís karlar eru í miklum meirihluta gerenda kynferðisofbeldis. Ætla má að skýringuna sé að mestu leyti að finna í forréttindastöðu þess hóps. Hugtakið karlmennska nær yfir margar ólíkar hugmyndir sem eiga að lýsa einkennum, hegðun og venjum karla fremur en kvenna – um hvernig þeir eigi að líta út, haga sér, hugsa og líða, ef þeir ætla sér að uppfylla væntingar samfélagsins til karla. Slíkar staðalmyndir um hinn „eðlilega karlmann“ eru alltumlykjandi í t.d. fjölmiðlum, bókmenntum og bíómyndum. Þegar fyrstu karlafræðingarnir skoðuðu karlmennsku á gagnrýninn hátt var það fyrsta sem þeir sáu að hún tengdist oft valdníðslu, væri eyðandi og ofbeldisfull. Í þeirri umræðu er mikilvægt að muna að ekki er verið að kalla karlmenn sem hóp eitraða eða skaðlega, heldur þær ímyndir sem þeim er gert að gangast inn í. Þessar karlmennskuvæntingar til karla geta orðið mjög varasamar og skaðað bæði karla og önnur kyn. Krafa um að vera alltaf harður af sér, sterkur, valdamikill og ráðandi (og megi því ekki gráta, tjá tilfinningar eða ræða um vandamál sín) getur leitt til tilfinningavanda á borð við þunglyndi og sjálfskaðandi hegðun og hefur þá verið talað um gjald karlmennskunnar. Skaðlegum karlmennskuímyndum fylgja oft alvarlegar ranghugmyndir um kynlíf og kynferðisofbeldi. „Alvöru karlmaður“ á að vera ráðandi í kynlífi, alltaf að vera til í tuskið og álíta alla kynferðislega athygli og reynslu jákvæða. Kynlíf eru sigrar frekar en tenging við aðra manneskju. Þessi skilaboð geta gert það að verkum að sumir strákar og karlar upplifa sig eiga tilkall til kynlífs og þá alfarið á sínum forsendum. Skaðlegar karlmennskuímyndir á borð við að karlar eigi alltaf að geta varið sig eða að þeir eigi alltaf að taka kynferðislegum áhuga fagnandi, hafa sömuleiðis neikvæð áhrif á stöðu hinsegin karla og karlkyns brotaþola kynferðisofbeldis (sem getur leitt til þess að þeir leita sér síður hjálpar). Skaðlegum karlmennskuímyndum fylgja oft alvarlegar ranghugmyndir um kynlíf og kynferðisofbeldi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=