Handbók um velferð og öryggi í leikskólum

Öryggishandbók leikskóla 12 Námsárangur byggir á forsendum nemandans sjálfs, samskiptum og samkennd með vinum og félögum og samskiptum við kennara, annað starfsfólk sem og á upplifun nemandans um eigin stöðu. Æskilegt er að nemandinn taki þátt í aðgerðum til að móta vinsamlegt umhverfi í skólanum. Foreldrar eru hluti af skólasamfélaginu og er mikilvægt að traust og virðing ríki milli heimilis og skóla. Foreldrar nemenda skulu gæta hagsmuna barna sinna. Þeir skulu hafa náið samráð við starfsfólk skóla, fylgjast með skólagöngu barna sinna og veita þær upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð barnanna. Foreldrum ber að greina skólanum frá þeim þáttum sem kunna að hafa áhrif á námsframvindu, ástundun og hegðun, svo sem um vanlíðan barna sinna og áföll sem gætu haft áhrif á skólagöngu þeirra, sem og þegar breytingar verða á högum þeirra og aðstæðum. Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, nr. 1040/2011 segir að skólastjórnendum og kennurum beri að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Umsjónarkennarar skulu upplýsa foreldra reglulega um skólabrag og bekkjaranda og leita eftir uppbyggjandi samstarfi við foreldrahópinn um hvorutveggja. Þetta á einnig vel við um leikskólann. Skólar eiga að hafa frumkvæði að því að stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda. Kennurum og öðru starfsfólki ber að sýna fjölbreyttum fjölskyldugerðum, menningu og aðstæðum skilning og virðingu. Í leikskóla á að leggja áherslu á sjálfstæði og frumkvæði og hvetja hvert barn til að taka ábyrgð á sjálfu sér. Eftirfarandi leiðarljós í aðalnámskrá leikskóla eiga að vísa leikskólum veginn í mótun leikskólastarfs um velferð. Starfsfólk leikskóla, í samráði við foreldra og börn, þarf að koma sér saman um hvernig starf leikskólans tekur mið af leiðarljósunum og skrá aðferðir og leiðir í skólanámskrá leikskólans: • Leikskóli á að vera lýðræðislegur vettvangur og lærdómssamfélag þar sem starfsfólk, foreldrar og börn eru virkir þátttakendur og hafa áhrif á ákvarðanir um málefni leikskólans. • Starfshættir leikskóla eiga að hvetja til samvinnu og samstarfs milli barna, starfsfólks, foreldra og nærsamfélags. • Leikskóli á að vera samfélag þar sem hver einstaklingur nýtur virðingar og leggur sitt af mörkum. • Leikskólastarf skal byggjast á jafnrétti, virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins og öðrum menningarheimum. • Virða skal rétt allra sem þar dvelja, óháð kynferði, bakgrunni, aðstæðum eða getu og leitast við að koma til móts við þarfir allra. • Starfshættir leikskóla eiga að stuðla að því að börn læri að bera virðingu og umhyggju fyrir öðru fólki og þrói með sér samkennd, tillitssemi og vináttu. • Í leikskóla á að stuðla að því að börn þrói með sér jákvæða sjálfsmynd með því að virða sérstöðu og sjónarmið hvers einstaklings. Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, nr. 1040/2011 eru eftirfarandi markmið: Að nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öruggir í öllu starfi á vegum skólans. Að stuðla að ábyrgð nemenda á eigin námi, hegðun og samskiptum með hliðsjón af aldri, þroska og aðstæðum að öðru leyti.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=