Orð eru ævintýri

87 86 Skoðum bókina saman Auðgum orðaforða barna Bókin Orð eru ævintýri getur nýst í leik og daglegu starfi með börnum og gefur tækifæri til að vinna með orðaforða á fjölbreyttan hátt. Bókina má skoða aftur og aftur og ræða um einstaka myndir eða opnur. Tilvalið er að nota orðin í mismunandi samhengi og ræða um atburði í nútíð, þátíð og framtíð. Æskilegt er að nota málsgreinar sem barnið skilur og bæta einnig við nýjum orðum og hugtökum. Þetta er hægt að gera með því að benda á myndirnar, segja orðin og nefna e.t.v. samheiti. („Veistu að barn getur þýtt það sama og krakki?“) Gæta þarf að því að tala ekki of hratt, spyrja opinna spurninga og gefa barninu tíma og tækifæri til að svara: Hvað sérðu á myndinni? Hvað er að gerast? Hverjir eru á myndinni? Hvar gerist sagan? Hvernig er veðrið? Hvað heldur þú að fólkið á myndinni sé að hugsa? Hvernig heldur þú að þeim líði? Af hverju? Hvernig myndi þér líða? Hvað heldur þú að hafi gerst á undan? Hvað heldur þú að gerist næst? Þegar unnið er með orðaforða er mikilvægt að hvetja börn til að tjá sig og hrósa þeim. Í samskiptum er lykilatriði að hlusta á börnin. Það þarf að taka eftir því hvaða umræður skapast, hvaða spurningar vakna og dýpka síðan umræðuna með nánari útskýringum. Smámyndirnar sem eru á hverri spássíu má finna á opnumynd. Tilvalið er að hvetja börnin til að finna myndirnar á opnunni. Skoða má stærðarhugtök og nefna hluti bæði í eintölu og fleirtölu. Börnin geta fundið hluti sem eru á myndunum í sínu eigin umhverfi og lýst því sem þeim finnst áhugavert. Einnig má vinna með veggspjöld eða hugarkort þar sem orðum og myndum er safnað af hverri opnu. Þá má prenta út myndir bókarinnar af vef. Börnin geta útbúið sína eigin orðabók og tengt hana við sterkasta tungumál sitt. Kötturinn Kúri Kötturinn Kúri eða ummerki eftir hann birtist á öllum opnum bókarinnar og börnin geta skemmt sér við að leita að honum. Kúri er venjulegur heimilisköttur sem eltist við eitt og annað á opnumyndunum og kemur sér í ýmis vandræði. Það er tilvalið að nota ævintýri Kúra sem kveikju að samtali á hverri opnu. Leikið með orð Hægt er að setja hluti í poka sem tengjast ákveðnum opnum í bókinni. Börnin skiptast á að draga hlut úr pokanum og lýsa honum fyrir hópnum. Hvert barn segir frá því sem það veit nú þegar um hlutinn og hópurinn hjálpast að við að bæta við frekari smáatriðum. Í samtali um hlutinn er hægt að tala um hvaða flokki hann tilheyrir (farartæki, eldhúsáhöld, föt …), hvernig hann lítur út, hvort hann gefi frá sér hljóð, hvernig er hann viðkomu (harður, mjúkur …), hlutverk hans, litur o.s.frv. Sögugerð Í sögugerð blómstrar frásagnargleðin og ímyndunaraflið fær að njóta sín. Gott er að nota myndir til að örva börnin til frásagnar. Barnið getur sagt frá því sem það sér á myndunum. Þetta er góð æfing í því að læra að skipuleggja frásögn. Skemmtilegt er að börnin reyni að rifja upp eftirminnilega atburði sem tengjast myndum bókarinnar. Það er líka mikilvægt fyrir þann fullorðna að vera góð fyrirmynd og segja börnunum sögur úr eigin lífi út frá myndunum. Eitt verkefnanna gæti verið að búa til sögur saman. Þá eru sagðar sögur eftir efnisatriðum í bókinni, t.d. búðarferð eða útilegu, og barnið hvatt til þess sama. Sögurnar eru skráðar í litla bók sem barnið myndskreytir. Barnið getur svo „lesið“ bókina fyrir félaga sína. Fleiri hugmyndir að leiðum til að nýta bókina í starfi með börnum má finna í hugmyndabanka á vef mms.is

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=