Handbók í textíl

73 ÚTSAUMUR Að sauma út form og línur í dúk eða púða Áhugavert er að vinna minni útsaumsverk í hluti sem hafa notagildi. Hér er kynnt hvernig nýta má eina eða fleiri aðferðir til að skapa eilítið stærri verk. Útsaumsefnið er vel sýnilegt og er áferð þess og litur valinn í samræmi við form og línur í munstri og í samspili við garnlit og garntegund. 1. Teiknið dúk eða púða í réttri stærð. Teikningin er einnig sniðin sem útsaumsefnið er sniðið eftir. Gerið ráð fyrir saumförum (púði) eða földum (dúkur). 2. Skipuleggið útsauminn; form, línur og liti og hvaða útsaumsspor henta verkinu. Ákveðin spor henta til að forma línur, eins og þræðispor, afturstingur og varpleggur en önnur til að fylla upp í minni form eins og flatsaumur. Viss spor eru meira myndræns eðlis eins og klóspor, lykkjuspor, greinaspor og fræhnútar. 3. Teiknið formin (t.d. ferninga og hringi) á stífan pappír og klippið út (skapalón). 4. Þræðið efnið meðfram ytri útlínum útsaumsverksins og skálínur horn í horn. Á þann hátt verður auðveldara að staðsetja form og línur. 5. Teiknið meðfram útklipptum formum á efnið með vel ydduðum blýanti. Einnig er möguleiki á að klippa út efnisbúta (pjötlusaumur) eftir skapalóninu og sauma síðan niður á efnið með þræðisporum eða tungusporum. Einnig er möguleiki að nota afklippta pappírinn, þ.e. opið sem myndast við að klippa út formin sem skapalón fyrir þrykk. Þrykkja má hluta af formunum á efnið og blanda þannig saman útsaumi og pjötlusaumi eða útsaumi og þrykki eða blanda saman öllum aðferðunum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=