Handbók í textíl

196 Kertavax: Byrja þarf á að ná sem mestu af vaxinu burt. Það er auðveldast með því að frysta eða kæla vaxblettinn og skafa sem mest af. Ef um litlaust vax er að ræða getur verið gott að leggja eldhúspappír yfir og strauja með volgu straujárni. Ef vaxið er litað er betra að nota rauðspritt eða brennsluspritt til að ná blettinum úr eða jafnvel hreinsað bensín ef liturinn er sterkur. Kertavaxleifar leysast upp við 60° hita og ef flíkin eða dúkurinn þolir þann hita er best að þvo hann strax eftir blettahreinsunina. Kísill: Nota má edik, sítrónu eða matarsóda í kringum blöndunartæki. Penslasápan frá Undra reynist vel á kísil. Lím: Það fer eftir styrkleika límsins hvað hentar best en hreinsað bensín eða naglalakkseyðir virka á flest lím. Kannið fyrst hvort efnið þoli þessa vökva. Mygla: Ef myglublettur er í fatnaði er ráð að bera súrmjólk á hann, láta liggja góða stund, jafnvel nokkra klst. Skola svo vel og þvo með sápu, t.d. grænsápu (kristalssápu). Rauðvín: Byrja á að þurrka mesta vökvann upp. Strá matar- sóda yfir blettinn og láta þorna. Skola og þvo á venjulegan hátt. Aðferðin með uppþvottalög og plastpoka virkar vel á rauðvínsbletti. Hella má hvítvíni strax yfir rauðvínsblett eða nota sódavatn og þurrka upp með svampi. Þvo síðan. Eitt ráð er líka að bera glyserínupplausn (blandað til helminga á móti vatni), láta liggja á um stund og skola vel með volgu vatni. Ef bletturinn hverfur ekki er uppþvottalögur ágætur til að ná honum af. Ryð: Gegn ryðblettum í fatnaði eða öðrum vefjarefnum er best að nota ferskan sítrónusafa. Þá er lagður klútur eða annað efni sem dregur vel í sig vökva undir, safanum dreypt á blettinn og salti stráð yfir. Látið þorna í u.þ.b. klst. (gott í sól). Skolað að lokum og þvegið. Skósverta: Hreinsað bensín er best til að ná skósvertu af ljósu efni eða leðri. Nota t.d. eyrnapinna við verkið en varast skal að ganga of nærri efninu sem verið er að hreinsa. Ef um ljósa skó er að ræða þarf að bera á þá og bursta vel á eftir. Sót: Venjulegt sót er vatnsuppleysanlegt og nægir oftast að þvo flík sem sót fer í. Ef um er að ræða fitublandað sót er uppþvottalögur gagnlegur. Ryksugun eða burstun er oft nóg til að losa um sótbletti. Straujárn: Það fer eftir því hvaða efni er í hitafleti straujárnsins hvaða efni er best að nota. Járnið þarf að vera kalt. Tannkrem getur reynst vel á krómað stál, hreinsað bensín á keramik og volgt sápuvatn á teflonhúðuð straujárn. Brennsluspritt virkar líka vel á teflonhúð. Súkkulaði: Best er að láta súkkulaðið þorna og skafa með bitlausum hníf. Bleyta vel í blettinum og bera t.d. uppþvottalög eða lífræna sápu á hann og setja flíkina í plastpoka og loka vel. Má bíða þannig í nokkra klukkutíma. Skola síðan vel úr og þvo flíkina á venjulegan máta. Tómatsósa: Láta kalt vatn renna á blettinn, nota mildan uppþvottalög og þvo síðan. Tússlitir: Sama aðferð og með blek, brennsluspritt er best. Ef tússið er á vegg eða máluðum eða lökkuðum fleti, getur glerúði dugað til að ná því af. Tyggjó: Best er að byrja á því að kæla/frysta tyggjó- klessuna ef það er mögulegt, annaðhvort með klakamola eða setja flík í frysti. Skafa síðan af með hníf eins og hægt er. Nota svo hreinsað bensín til að ná restinni af blettinum í burtu. Varalitur: Best er að nota brennsluspritt eða hreinsað bensín. Bera svo sápu á blettinn og láta liggja um stund. Skola vel úr. Byggt á upplýsingum frá Leiðbeiningarstöð heimilanna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=