Ég og sjálfsmyndin - kennsluleiðbeiningar

Ég og sjálfsmyndin – Kennsluleiðbeiningar | © Sigríður Steinunn Karlsdóttir | Menntamálastofnun 2022 | 2896 | 8 Sjálfsmynd og hver er ég? Markmið: Að nemendur fái skilning á hugtökunum sjálfsmynd, sjálfstraust og sjálfsálit. Að nemendur átti sig á sínum eiginleikum og hlutverkum í hóp ásamt því að skoða styrkleika sína og veikleika. Fróðleikur fyrir kennarann: Sjálfsmynd er í raun heildarhugmynd manneskjunnar um sjálfa sig. Inn í heildarhugmyndina spila fjölmargir þættir s.s. persónuleiki, áhugamál, skoðanir, gildismat, kyn, aldur, störf o.s.frv. Sjálfsmyndin er uppbyggð og mótuð með tímanum í gegnum annað fólk og aðstæður. Spurningin Hver er ég? er mjög víða í efninu og býður upp á margskonar svör. Hver erum við í raun og veru? Þegar öll okkar hlutverk eru tekin burt, hvað af okkur stendur eftir? Gera vinir mínir mig að þeirri manneskju sem ég er? Þessari spurningu verður ekki svarað svo glatt og gætu sumir sagt að þessari spurningu sé ekki hægt að svara. Breytist þessi „ÉG“ mögulega eftir æviskeiðum? Gildi og eiginleikar sem einkenna fólk eru margskonar og væri kannski við hæfi að nefna við nemendur t.d. þessi gildi: ábyrgð, frelsi, friður, hamingja, heiðarleiki, hugrekki, kærleikur, samvinna, umburðarlyndi, virðing og þakklæti. Kveikja á ensku: Myndband á ensku um sjálfsmynd og gildi. Wellbeing For Children: Identity And Values: https://www.youtube.com/watch?v=om3INBWfoxY Áður en horft er á myndina getur verið gott að fara yfir hugtök og erfið orð, svo sem: • identity: eiginleiki • values: gildi • ethnicity: uppruni (þjóðaruppruni) • unique: einstæður • determination: viljastyrkur (einbeitni, staðfesta) Umræður út frá myndbandi: • Hvað merkir hugtakið eiginleiki? Hverjir eru eiginleikar ykkar? • Hvað merkir að þú hafir gildi í lífinu? Getið þið nefnt dæmi um gildi? • Hugsaðu þér að allir í bekknum væru með sömu eiginleika, reynslu og gildi. Hvernig myndi lífið í bekknum breytast? • Skrifaðu lista með því sem þér finnst gott, skemmtilegt og mikilvægt – eins og gert er í mynd- bandinu. Prófaðu að tengja gildi við listann eins og gert er þar. Hér getur verið gott að hjálpast að. • Haldið þið að einhver viti betur hvernig okkur líður og hvaða áhugamál við höfum en við sjálf? • Þó þið séuð ung, þekkið þið ykkur sjálf? Hver eru lífsgildi ykkar og eiginleikar? Kveikja: Sjálfsmynd bls. 4 • Skoðið barnið í miðjunni á myndinni. Umræðupunktar við mynd: • Hvernig sjálfsmynd ætli barnið í miðjunni hafi? • Hvernig ætli það sjái sjálft sig? • Hvað gæti barnið gert til að stækka skuggann sinn? • Hvaða hugsanir ætli búi innra með barninu? • Hefur ykkur liðið eins og hinum krökkunum á myndinni? Getið þið lýst því hvernig ykkur leið?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=