Ég og sjálfsmyndin - kennsluleiðbeiningar

Ég og sjálfsmyndin – Kennsluleiðbeiningar | © Sigríður Steinunn Karlsdóttir | Menntamálastofnun 2022 | 2896 | 55 Steinn á maga. Nemendur finna stein úti og leggjast á gólfið með steininn (lítill steinn) á naflasvæði (yfir fötin). Nemendur eiga að reyna að lyfta steininum eins hægt og hátt upp og þau geta nokkrum sinnum. Áhugaverðir tenglar: Heillastjarna – Æfingar í slökun og öndun fyrir börn https://heillastjarna.is/ Hugarfrelsi – Öndunaræfingar https://hugarfrelsi.is/adferdir-hugarfrelsis/ondun/ Hugtök útskýrð Umhyggja: Jákvæð tilfinning sem tengist samkennd. Að þykja vænt um einhvern. Útrás: Leið fyrir líkamann til að losa um spennu í líkamanum eða tilfinningar sem safnast upp. Fólk fær útrás t.d. í gegnum líkamlegar hreyfingar eða tjáningu. Jákvæðni Markmið: Að nemendur þjálfi upp jákvæðni og jákvætt hugarfar Fróðleikur fyrir kennarann: Jákvæðni er eiginleiki sem hægt er að þjálfa upp og jákvætt andrúmsloft í bekknum/hópnum er einnig þjálfunarhæft. Kveikja: Stutt teiknimynd frá Pixar um jákvæðni. Myndband á ensku https://www.youtube.com/watch?v=2M_wZLyO1zY&ab_channel=AlimzhanYakhiyarov Umræður: • Hafið þið kynnst manneskju sem er alltaf jákvæð? Er hægt að vera alltaf jákvæður? • Fæðast sumir bara jákvæðir og aðrir neikvæðir, eða er hægt að þjálfa upp jákvæðni og svo neikvæðni? • Er jákvæðni bara vani? Er hægt að venja sig á jákvæðar hugsanir? • Það tekur 21 dag að búa til nýja venju fyrir líkamann, samkvæmt rannsóknum. Haldið þið að þið getið gert tilraun og þjálfað upp jákvæðni eins og í regnboganum á opnunni? • Hvað haldið þið að við hugsum margar jákvæðar hugsanir yfir daginn? En neikvæðar? • Getum við reynt að sjá tækifærin í aðstæðum, fremur en vandræðin? • Hvernig líður ykkur þegar annað fólk er mjög neikvætt? Verðið þið neikvæð líka? Verkefni: Jákvæðni inn í daginn Það getur verið gott að byrja daginn á því að segja jákvæðar setningar. Til dæmis: í dag er góður dagur eða ég er nóg. Skrifið nokkrar svona setningar á litla miða og setjið í sameiginlega krukku bekkjarins. Látið krukkuna standa í bekknum og dragið einn miða í upphafi skóladags. Lesið miðann í hljóði eða upphátt. Verkefni: Bangsímon – jákvæðnin Bangsímon hefur tileinkað sér jákvætt viðhorf til lífsins. Sláið inn í leitarvél „Bangsimon quote“ og sjáið hvaða tilvitnanir koma upp. Veljið ykkur lífsspekiorð Bangsímon og þýðið þau á íslensku.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=