Ég og sjálfsmyndin - kennsluleiðbeiningar

Ég og sjálfsmyndin – Kennsluleiðbeiningar | © Sigríður Steinunn Karlsdóttir | Menntamálastofnun 2022 | 2896 | 54 Hlustun og slökun Markmið: Að nemendur sjái árangur virkrar hlustunar, öndunar og slökunar. Fróðleikur fyrir kennarann: Börn þurfa virka hlustun til að efla sjálfstraust, þroskast og stækka. Börn þurfa næði, ró, hlustun og slökun til að endurstilla taugakerfið. Góðan hlustanda má skilgreina sem einstakling sem fylgist með rödd, innihaldi og líkamsmáli viðmælandans. Meginaðferð í þessu er að taka eftir óyrtum skilaboðum, sér í lagi andlitssvip og líkamsstöðu. Góður hlustandi hefur taumhald á þörf sinni fyrir að neita, gagnrýna eða útskýra án þess að heyra alla söguna fyrst. Hann endurtekur og umorðar það sem viðmælandinn segir, sem hvetur viðkomandi til að lýsa afstöðu sinni nánar. Góður hlustandi tekur saman til að athuga hvort hann hafi skilið. Að hlusta, er hæfni sem við getum lært. Að hlusta, sýnir kærleika til fólks, stuðlar að sterkari vináttuböndum og gerir andanum kleift að blessa okkur með gjöf dómgreindar, til að skilja betur þarfir fólks. Kveikja: Skoðið upptalninguna um góðan hlustanda á blaðsíðu 52. Umræðuefni: • Eruð þið góðir hlustendur, samkvæmt upptalningunni? • Í hverju getið þið bætt ykkur? • Grípið þið fram í þegar vinur ykkar er að tjá sig, eða hlustið þið í rólegheitum? • Dæmið þið vin ykkar þegar hann opnar sig og deilir með ykkur einhverju? • Sýnið þið þolinmæði þó að vinir ykkar tali hægt eða eigi erfitt með að orða hlutina? • Sýnið þið kærleika eða umhyggju? Verkefni: Ljáðu mér eyra. Nemendur skiptast á að hlusta með athygli. Tvö og tvö saman sitja þau á móti hvort öðru og segja frá uppáhalds dýrinu sínu og af hverju það sé uppáhaldsdýrið sitt. Sá sem ekki tjáir sig hlustar, sýnir að hann sé að hlusta en má ekki bæta við athugasemdum eða tjá sig á móti. Svo er skipt og hlustandinn breytist í þann sem deilir. Gott er að minna á augnsamband og sitja kyrr til að gefa þeim sem deilir þau skilaboð með líkamstjáningu að við séum að hlusta. Verkefni: Að gefa hlustun og deila því áfram: Nemendur eru 2 og 2 saman. Sá sem tjáir sig segir frá 3-5 atriðum um sjálfan sig og helst eitthvað sem ekki margir vita. Sá sem hlustar, má skrifa niður og síðar meir fer hann upp og „kynnir“ þann sem tjáði sig. Dæmi: „Þetta er hann Konni, hann fæddist með dökkt hár og hann drekkur mjólk með poppi.“ Svo skipta þau um hlutverk. Verkefni: Að anda saman. Nokkrar góðar öndunaræfingar í hóp: Nemendur geta legið eða setið á stól. 4-4-4 öndunaræfingin er þannig að nemendur anda inn á 4 sekúndum, halda niðri í sér andanum í 4 sekúndur og sleppa loftinu út á 4 sekúndum. 4-7-8 er svipuð og 4-4-4 og virkar þannig að nemendur anda inn á 4, halda loftinu í 7 sekúndur og í mjög hægri útöndun losa þeir loftið á 8 sekúndum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=