Tatiana
Daglegt líf Tatiönu
Tatiana er 12 ára. Hún á heima hjá frænku sinni Rebecu
Gualinga. Rebeca á níu börn en þau eru flutt að heiman, svo að Tatiana hjálpar
gömlu konunni við dagleg störf.
Tatiana fer á fætur klukkan fjögur á hverjum morgni. Hún kveikir eld og fær sér jurtate með Rebecu. Svo ræða þær það sem þær hefur dreymt um nóttina. Rebeca er slungin við að ráða drauma. Eina nóttina þegar Tatiönu hafði dreymt að hún veiddi stóran fisk, varð Rebeca hrædd. Hún taldi það boða dauðsfall í fjölskyldu Tatiönu. Og það reyndist rétt, nokkrum dögum seinna andaðist einn af frændum Tatiönu.
Þegar búið er að drekka teið lærir Tatiana lexíurnar sínar við kertaljós. Svo birtir og Tatiana sækir vatn í ána og heggur eldivið. Síðan fer hún í betri fötin sín og fer í skólann.
Í skólanum lærir hún stærðfræði, lestur og aðrar námsgreinar
svipað eins og kennt er í skólunum hér á landi. En Tatiana lærir líka
aðrar nytsamar námsgreinar. Hún lærir hvernig á að rækta jörðina
og hvernig á að hirða villisvín og tapíra. Þegar skóla lýkur upp
úr hádegi hleypur hún heim. Hún flýtir sér að fá sér
skál af chicha, skiptir um föt og reiðir ef til vill öxina um öxl. Svo tekst hún
á við önnur verkefni dagsins.
Tatiana fer að hátta klukkan átta eða níu á kvöldin eins og flestir aðrir.
Þá eru nálægt því tvær klukkustundir frá því að
dimmdi. Ekki er margt hægt að fást við í myrkrinu. En þegar tunglsljós
er og það er svolítið bjartara, hittir Tatiana aðra unglinga niðri við ána.
Eins og sjá má er erfitt verk að vera góður Indíáni. Allan daginn eru Indíánar sístarfandi og mest fer orkan í að afla matar. Það þarf að gæta akranna, veiða bæði fiska og landdýr og búa til mat.