Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

35 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Fræðslu um ofbeldi, jafnrétti, samskipti, kynlíf, mörk og samþykki verður að flétta formlega inn í kennslu, félagslíf, forvarnir og menningu hvers skóla. Bjóðum vandaða kynfræðslu Fléttum því klámfræðsluna saman við góða kynfræðslu. Hornsteinn kynfrelsis er að hafa aðgengi að uppbyggilegum og góðum upplýsingum um kynlíf. Því miður hefur slík fræðsla oft verið talin vandræðaleg, skammarleg eða óviðeigandi. Auðvelt er að gagnrýna hefðbundna kynfræðslu ungmenna sem oft er takmörkuð og fyrst og fremst líffræðileg. Hugmyndir um hvað sé æskileg eða viðtekin hegðun í kynlífi eru hinsvegar sjaldan ræddar. Klámið verður því iðulega staðgengill kynfræðslu, með sínar ranghugmyndir um kynlíf og neikvæðu áhrif á kynheilbrigði og samskipti. Góð samskipti, skýr mörk og einlægt samþykki eru lykilatriði í heilbrigðu kynlífi. Þetta eru þeir hlutir sem nær alltaf skortir í klámi og þess vegna verða unglingarnir að fá góða kynfræðslu um þessi atriði til að vega á móti skaðlegum skilaboðum klámsins. Ógagnlegt er að einblína alfarið á skaðleg skilaboð, fræðum ungmennin að sama skapi um jákvæða hluta kynlífs. Mikilvægustu skilaboð kynfræðslu eru kannski einfaldlega þau að kynlíf eigi að vera gott og skemmtilegt fyrir alla aðila en ekki kalla fram neikvæðar tilfinningar, þá sé eitthvað skakkt í gangi. Kynlíf sé ekki eitthvað sem við skuldum öðru fólki eða þurfum á nokkurn hátt að stunda, heldur skuli nálgast á eigin forsendum – byrja að stunda það þegar við erum sjálf tilbúin, með þeim sem við kjósum, eingöngu þegar okkur langar og á þann hátt sem okkur langar. Annað er brot á kynfrelsi og stundum kynferðisofbeldi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=