Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

32 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Ásakanir um að konur sé neyddar eða plataðar til að leika í klámmyndum hafa lengi verið viðloðandi klámframleiðslu og algengt að leikkonurnar upplifi pressu um að taka þátt í ýmsum athöfnum. Örfáar leikkonur ná að öðlast einhvern frama í þessum geira en meirihluti þeirra gengur hratt frá honum með óbragð í munni. Laun klámmyndaleikkvenna hækka eftir því hversu mikil niðurlæging felst í verknaðinum (sem er m.a. ástæðan fyrir því að karlar hafa almennt lægri laun fyrir klámmyndaleik – en þessu er gjarnan kastað fram sem sönnun fyrir því að klám sé ekki kvenfjandsamlegt). Fyrir notandann er engin leið að vita hvort klámið er í raun leikið og með sönnu samþykki allra aðilanna eða hvort hann er að búa til efnahagslegan hvata fyrir kynferðisglæpi (þótt hann hafi jafnvel engan áhuga á því). Kennum ungmennum að vera meðvitaðir neytendur sem leggja sig fram um að styðja ekki við skaðlega framleiðslu af nokkru tagi. Áhrif klámneyslu á kynferðisofbeldi Setjum þetta allt loks í samhengi við opið aðgengi að klámi, hversu ung börn eru þegar þau komast í það og hversu mikil neyslan er meðal íslenskra drengja. Klám sýnir sjaldnast samræður um mörk og samþykki, virðingu eða jafnræði – alla nauðsynlegu fylgifiska heilbrigðs kynlífs. Þátttakendur gera oftast það sem þeir vilja við hinn aðilann án umræðu og þannig stuðlar klám að ranghugmyndum um kynlíf og samskipti. Klámefni, sem er aðgengilegt öllum á netinu, er í langflestum tilfellum ofbeldisfullt á einhvern máta. Klámið sýnir ekki kynferðisofbeldi eins og það er í raunveruleikanum með ótta, niðurlægingu, sársauka og afleiðingum fyrir brotaþolann, heldur er það fléttað saman við kynferðisleg viðbrögð. Rannsóknir hafa sýnt að reglulegir neytendur kláms eru líklegri til að finnast spennandi að sýna valdaójafnvægi í kynlífi; svo sem að rífa í hár, rassskella, þröngva andliti harkalega að kynfærum, slá eða kyrkja bólfélaga sinn. Við klámneyslu verða mörk óljós, samskiptin óskýr og líkurnar á kynferðisofbeldi aukast. Ef nemendur mótmæla því að klámáhorf geti haft slík áhrif á persónulega hegðun, mætti spyrja út í hugmyndir þeirra um rómantík, stefnumót og ástarsambönd. Lýsa þau flest sama þemanu? Handritinu að flestum rómantískum Hollywood-myndum kannski? Fjölmiðlar og allt efni sem við neytum hefur svo sannarlega áhrif á huga okkar. Kenna þarf nemendum að líta gagnrýnið á öll utanaðkomandi skilaboð um kynlíf en kafa frekar inn á við í leit að sínum raunverulegu löngunum og taka opinská samtöl við rekkjunauta um mörk og samþykki.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=