Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

21 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Forréttindi Forréttindi er orð sem lýsir stöðu manneskju í samfélaginu og því forskoti sem hún hefur umfram aðra. Í stuttu máli tengjast forréttindi kyni fólks, kynhneigð, kynvitund, stétt, aldri, líkamlegri og andlegri getu, trú, lífsskoðunum, félagslegri og fjárhagslegri stöðu, uppruna, þjóðerni, litarhafti, líkamsgerð o.s.frv. Skortur á forréttindum jaðarsetur fólk í minnihlutahópa sem upplifa oft mismunun og fordóma því samfélagið gerir síður ráð fyrir þörfum þess fólks í daglegu lífi. Margþætt mismunun vísar til þess að fólk býr við fjölbreyttan veruleika og tilheyrir oft fleiri en einum minnihlutahópi. Sjónarhorn forréttindahóps er iðulega upphafið á kostnað annarra hópa og verður ráðandi í samfélaginu. Gjarnan telja meðlimir forréttindahópa forskotið eðlilegt og sanngjarnt eða pæla einfaldlega ekkert í því. Slík forréttindablinda er skiljanleg því það er í eðli forréttinda að sjá síður ójafna stöðu ef hún bitnar ekki á okkur sjálfum. Öll berum við þó ábyrgð á að kafa ofan í okkar eigin forréttindi. Misvægi í forréttindum tengist sterklega kynbundnu ofbeldi því í miklum meirihluta mála hefur gerandinn samfélagslega valdastöðu gagnvart brotaþola. Fyrir utan hinn áberandi fjölda kvenkyns brotaþola koma hér inn breytur á borð við aldur, kynverund, litarhaft, fötlun og fátækt. Því fleiri frávik frá samfélagsnorminu, því útsettari er manneskja fyrir ofbeldi. Kynjakerfið Kynjakerfið er samfélagsgerð sem skilgreinir einstaklinga fyrirfram út frá kyni og mismunar þeim á grundvelli þeirrar flokkunar. Kerfið inniber allar þær skráðu og óskráðu reglur sem segja til um hvernig fólki er ætlað að haga sér og hugsa út frá kyni. Slíkar staðalmyndir eru fyrirfram ákveðnar hugmyndir um útlit og/eða eiginleika fólks sem tilheyrir ákveðnum hópum. Börn læra snemma að til séu tvö kyn sem feli í sér andstæða eiginleika því samfélagið rammar fólk inn í tvö aðgreind hólf karlmennsku og kvenleika. Þessi tvíhyggja er ákaflega þröngur rammi og er á ólíkan hátt skaðleg öllum – þeim konum og körlum sem falla inn í rammann, konum og körlum sem ekki falla inn í rammann og allra helst þeim sem ekki tilheyra kynjaflokkun tvíhyggjunnar. Í þessari aðgreiningu tveggja andstæðra póla má líka sjá ójafnt verðleikamat, þar sem hið karlmannlega fær kerfisbundið meiri virðingu en hið kvenlega og fólk utan tvíhyggjunnar verður oft fyrir mestri mismunun. Kynjakerfið hefur áhrif á viðhorf til fólks og viðmótið sem það fær frá öðrum. Ef manneskja passar ekki inn í kynjakerfið, setur sig upp á móti því eða brýtur reglur þess á einhvern hátt, kallar það oft fram neikvæð viðbrögð. Þegar kemur að ofbeldisfræðslu er nauðsynlegt að vita að minnihlutahópar eiga í sérstakri hættu á að verða fyrir kynbundnu ofbeldi og að það ofbeldi á sér gjarnan sérstakar birtingarmyndir.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=