Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

17 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Ef gerandi opnar sig (eða er ásakaður um brot)  Hjálpa skal geranda að taka ábyrgð. Eina leiðin til að taka ábyrgð er að viðurkenna gjörðir sínar og vera opinn fyrir sjónarhorni hins aðilans.  Það er munur á sannri iðrun og innihaldslausri afsökunarbeiðni, í því að taka ábyrgð á að hafa brotið á annarri manneskju felst heilt bataferli.  Þó er lykilatriði að brotaþoli stýri öllum samskiptum geranda og brotaþoli í kjölfarið, og alls ekki alltaf sem þolendur geta hugsað sér að mæta geranda sínum. Þetta eru ekki aðstæður til að kalla á að báðir aðilar mæti á „sáttafund“.  Stoppaðu gerandann strax í því að gera lítið úr, réttlæta eða saka brotaþolann. Þögn og hlutleysi utanaðkomandi styðja ofbeldið. Hægt er að styðja geranda án þess að umbera slíkt tal og það er í raun okkar besta aðstoð við viðkomandi að styðja í átt að ábyrgð og betrun.  Ekki er víst að um einbeittan brotavilja hafi verið að ræða. Eins og rætt verður seinna í þessari handbók kemur margt inn í ólíkar hugmyndir fólks um samskipti og kynlíf. Þetta núllar þó ekki út ofbeldið. Upplifun tveggja aðila af kynferðisofbeldi getur verið gjörólík en þrátt fyrir það situr ávallt eftir brotaþoli með afleiðingar. Að meðhöndla atvikið út frá upplifun brotaþola felur ekki í sér afstöðu um ásetning eða persónu gerandans, heldur er grundvallar virðing fyrir brotaþola.  Til að taka vel á kynferðisofbeldi innan skólans þarf að ríkja meðvitund um að báðir aðilar eru (oft) nemendur skólans og þurfa líklega báðir á stuðningi og úrræðum að halda. Hér mætti gera ráð fyrir að höfundar vilji minna á að gerandi þurfi líka stuðning … en merkilegt nokk virðist mun algengara í málum innan skóla að brotaþolinn gleymist. Enda afar algengt að brotaþoli flosni upp úr námi og hætti þannig að vera „vandamál skólans“. Fórnum aldrei brotaþola í viðleitni við að styðja ungan geranda!  Gerandi þarf að vita að ofbeldið þarf ekki að skilgreina hver hann er, hann er ekki bara ofbeldið sem hann hefur beitt. Það er hægt að breytast og hann hefur valkosti. Ofbeldi er lærð hegðun og ekki nauðsynleg. Ávarpaðu þann hluta í honum sem vill ekki beita ofbeldi. Andstæðan við gerendameðvirkni þarf ekki að vera útilokun á geranda sem okkur þykir vænt um. Hjálpum ungum gerendum að taka ábyrgð, viðurkenna gjörðir sínar og læra betri leiðir.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=