Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

16 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Tilkynningarskyldan Hafa skal í huga að ef ólögráða barn segir frá ofbeldi í sinn garð hefur skólinn tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda. Hver skóli hefur verkferla í slíkum málum, kynntu þér hvernig skal bera sig að. Gjarnan óskar nemandi eftir að yfirvöldum sé ekki gert viðvart og er starfsmaður skólans þá í ákveðinni siðferðislegri klípu – hann verður að fylgja lögum en finnst erfitt að brjóta trúnað við nemanda. Ekki lofa 100% trúnaði sem þú getur ekki staðið við en meta skal hvort nemandinn er í yfirvofandi hættu á áframhaldandi ofbeldi (þá þarf auðvitað að bregðast strax við), hvort brotið er glænýtt (112 eða Neyðarmóttakan) eða hvort um ræðir afmarkað brot úr fortíðinni. Þá má líta svo á að barnið sé ekki í hættuástandi hvað varðar áframhaldandi ofbeldi en mun frekar hvað varðar afleiðingar ofbeldisins. Þær er langbest að takast á við með hjálp annarra, svo í þessum tilvikum er oft mikilvægara að gefa ungmenninu tíma og gott samtal (við viðkomandi kennara eða annan fagaðila innan skólans) en að tilkynna í flýti til yfirvalda. Í sumum tilvikum er brotaþolinn að opna sig í fyrsta sinn svo árum skiptir og er því að taka afar stórt og erfitt skref, sem mæta þarf með hlýju og rólegheitum en ekki örvæntingu. Auðvitað er það hægara sagt en gert, því fátt er erfiðara en að heyra barn opinbera reynslu sína af kynferðisofbeldi. En þótt kennarinn sé að heyra þessa erfiðu frásögn í fyrsta sinn eru líkur á að barnið hafi lifað með reynslunni lengi og þurfi framar öll hlýtt og yfirvegað samtal, aðstoð við að skilgreina og skilja reynsluna og svör við þungbærum vangaveltum sínum. Ásetningur gerandans er ekki það sem skilgreinir brotið heldur upplifun brotaþolans. Upplifun tveggja aðila af sama atburði getur verið gjörólík og ekki þarf að vera að um einbeittan brotavilja gerandans hafi verið að ræða en það þurrkar þó ekki út upplifun brotaþolans og afleiðingar reynslunnar. Egg er jafn brotið hvort sem því er viljandi grýtt í gólfið eða misst af slysni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=