Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

14 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Eftirfarandi ráðleggingar megi þykja augljósar og sjálfsagðar – en eru hér listaðar upp einmitt vegna þess hve algengt er að brotaþolar segi frá andstæðum viðbrögðum umhverfis síns. Erfitt er að taka á móti upplýsingum um kynferðisofbeldi frá ungri manneskju og kennaranámið þjálfar okkur fæst fyrir slíkar aðstæður. En með því að lesa sér til og velta þessum ráðum fyrir sér, er líklegra að þau komi upp í hugann þegar á reynir og hjálpi okkur að bregðast gagnlega við. Fyrstu viðbrögð þegar brotaþoli kynferðisofbeldis opnar sig:  Haltu ró þinni  Nálgastu brotaþolann á hans forsendum og leyfðu viðkomandi að ráða för.  Hlustaðu og gefðu nemandanum góðan tíma til að segja frá.  Fullvissaðu brotaþolann um að rétt hafi verið að opna sig og þakkaðu fyrir traustið.  Ekki efa frásögnina. Algjört lykilatriði er að virða og trúa viðkomandi. Mundu hversu algengt kynferðislegt ofbeldi og áreitni er, og því engin ástæða til að rengja nemanda með slíka sögu. Með því er ekki verið að taka afstöðu til sektar ákveðins geranda, mundu að skólinn er ekki dómsalur heldur skiptir öllu máli að styðja ungmenni í sárum.  Ekki láta sögu nemandans innan skólans lita viðbrögð þín. Afleiðingar kynferðisofbeldis eru fjölbreyttar og geta vel truflað skólagöngu og aðra hegðun ungmennis. Algengt er að brotaþoli sem á fyrri sögu um kynferðisofbeldi sé tekinn síður alvarlega við að opna sig um annað brot eða gert ráð fyrir að vegna fyrri reynslu sé viðkomandi viðkvæmur og geti hæglega mistúlkað aðstæður. En staðreyndin er sú að brotaþolar eru útsettari fyrir endurteknu ofbeldi.  Ekki fara í vörn eða láta tengsl við eða ímynd þína af gerandanum ráða viðbrögðum þínum. Gerandinn getur vel verið uppáhaldsnemandinn þinn, góður félagi í kennarahópnum eða þjóðþekktur aðili sem þú hefur miklar mætur á. Staðreyndin er sú að oftast eru gerendur kynferðisofbeldis ósköp venjulegt fólk.  Alls ekki gera brotaþolann á nokkurn hátt ábyrgan fyrir því sem gerðist. Kynferðisofbeldi á sér fjölbreyttar birtingarmyndir og sjaldgæf er sú mynd sem við fáum helst úr t.d. bíómyndum – þar sem grímuklætt og vopnað skrímsli stekkur fram úr skugganum og ræðst á ókunnugan vegfaranda. Sektarkennd og skömm eru meðal algengustu afleiðinga kynferðisofbeldis. Ekki bæta á þær erfiðu tilfinningar með aðfinnslum um brotaþolann. Fullvissaðu brotaþola um að sökin sé alfarið þess sem beitti ofbeldinu og engin hegðun geti réttlætt það að verða fyrir ofbeldi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=