Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

13 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Þegar nemendur hafa tengsl við eða reynslu af kynbundnu ofbeldi Þrátt fyrir að samfélagsumræðan sé oft upplagt efni í kennslu ættu áberandi mál sem varða kynferðisbrot helst ekki að vera tekin til umfjöllunar í kennslustofunni. Ísland er lítið og þó nokkrar líkur á því að einhver í nemendahópnum sé tengdur málsaðilum hverju sinni, annað hvort þolendum eða gerendum. Reyndu því eftir fremstu getu að sleppa því að nota nafngreinda einstaklinga sem dæmi. Í stað þess er betra að tala almennt um efnið og út frá tölfræði og rannsóknum. Ef aðstandandi opnar sig Kennari þarf þó að geta gripið inn í umræðu nemenda um þekkt kynferðisbrot, sér í lagi ef ljóst er að tengdir aðilar eru í hópnum og erfiðar tilfinningar flækjast inn í umræðuna. Ef nemandi opnar á að hann sé tengdur aðila í þekktu máli skal hafa í huga að aðstandendur eru ávallt í þolendastöðu, hvort sem þeir eru tengdir brotamanni eða brotaþola og þurfa iðulega á aðstoð að halda við að takast á við þær aðstæður. Taki nemandi hart til orða í umræðu um kynferðisbrot, vegna tengsla sinna við geranda, skal kennari grípa inn í og ná stjórn á samræðunum en bjóða viðkomandi samtal í einrúmi til að ræða þessa sáru stöðu – líkt og öllum nemendum sem eiga um sárt að binda vegna ástvina sinna. Ef brotaþoli opnar sig Hafa ber í huga að hvert tilfelli er einstakt og ómögulegt að semja eitt handrit sem gengur upp í öllum aðstæðum en hér eru atriði sem vert er að þekkja. Eftirfarandi minnispunkta er gott að hafa í huga ef nemandi nálgast kennara og opnar sig um reynslu af kynferðisofbeldi. Ef nemandinn opnar sig í miðri kennslustund skal minna aðra nemendur á að þar ríki trúnaður, kennslustofan sé öruggt rými og umræður eigi ekki að fara á flakk út fyrir stofuna. Ekki tala til nemandans yfir bekkinn nema þá aðeins hlý og styðjandi lágmarksviðbrögð, heldur taka nemandann á eintal eftir tímann. Vera líka vakandi fyrir nemendum sem ekki tjá sig en bersýnilega líður illa, nálgast skyldi þá nemendur í rólegheitum eftir kennslustundina. Mundu að þú getur orðið mikilvægasta manneskjan í lífi þess sem segir frá. Viðbrögð þín skipta öllu máli.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=