Um víða veröld - Jörðin

136 Nýting jarðhitans Jarðhiti er mikilvæg orkulind á Íslandi og jarðhitasvæði eru nýtt á marg­ víslegan hátt. Hitaveitur færa varma heim í hús og aflmiklar borholur spúa gufu af ógnarkrafti sem nota má til að snúa hverflum og búa til rafmagn. Hinn hái hiti og gufuþrýstingur gera jarðvatnið á háhitasvæðunum heppi­ legt til að hita upp ferskt vatn sem notað er til húshitunar. Heita vatnið kemur úr krönum, fer inn á ofna, í lagnir í gólfum og til að bræða snjó á bílastæðum og gangstéttum. Heitt vatn er einnig notað í fiskeldi og við ylrækt sem er ræktun í gróðurhúsum. Hinar fjölmörgu sundlaugar og heitu pottar um allt land eru hitaðir upp með jarðhitavatni. Jarðvatn á háhitasvæðum er þó ríkt af gasi og steinefnum sem fer illa með lagnir. Það tærir málma og stíflar lagnir. Því þarf að hreinsa vatnið áður en því er veitt inn á kerfin. En vegna þess hversu lítið er af jarðefnum í vatni á lághitasvæðum er hægt að veita því beint inn á lagnir og er það auk þess yfirleitt talið drykkjarhæft. Á Reykjanesskaga við orkuverið í Svartsengi hefur myndast lón, Bláa lónið, þar sem heitt vatn úr djúpum borholum kólnar. Við það falla út steinefni sem mynda ljósbláa leðju sem sest í glufur og gjár í hrauninu. Steinefnin þykja heilnæm fyrir húðina og þessi óvenjulegi sundstaður nýtur mikilla vinsælda. Bláa lónið dregur til sín fjölda gesta, innlenda sem erlenda allt árið um kring. Svipuð aðstaða hefur verið búin til við Jarðbaðshóla í Mývatnssveit. Jarðböðin við Mývatn er vinsæll áningarstaður ferðamanna en þar hafa verið stunduð heit jarðböð til heilsubótar allt frá landnámsöld. Bláa lónið í Svartsengi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=