Um víða veröld - Heimsálfur

51 Asía Í austurhluta Kína eru láglendar fljótasléttur. Þangað hafa stórfljótin Yangtze (Chang Jiang), sem er fjórða lengsta fljót í heimi og það þriðja vatnsmesta, og Gulafljót (Huang He) skilað af sér framburði sínum af hálendinu í milljónir ára. Gulafljót ber með sér meiri framburð en nokkurt annað fljót í heimi, um 1600 milljónir tonna á ári. Þarna hafa náttúrulegar aðstæður til búsetu verið góðar, næringarríkur jarðvegur og gott loftslag, enda hefur láglendið í Austur-Kína verið eitt þéttbýlasta svæði á jörðinni í þúsundir ára. Þótt stórir hlutar landsins séu innan heittempraða beltisins er mikill munur á loftslagi eftir landshlutum og landslagi í Kína. Í hinum hálenda vesturhluta er kalt og þurrt meginlandsloftslag en hlýtt og rakt monsúnloftslag í suðausturhlutanum. Enda þótt Kína sé mikið landbúnaðarland er stór hluti landsins óhæfur til ræktunar vegna óhagstæðs loftslags eða skorts á frjósömum jarðvegi. Kínverjar eru sjálfum sér nógir í matvælaframleiðslu, þótt margir séu. Í vesturhlutanum er aðallega stunduð kvikfjárrækt. Þar er hirðingjabúskapur langalgengastur. Á fljótasléttunum í austri er akuryrkja mikil. Í heittempraða og hitabeltisloftslaginu syðst er mest ræktað af hrísgrjónum, en norðar, þar sem úrkoma er minni og hitastig lægra, eru ræktaðar sojabaunir og korntegundir eins og hveiti, hirsi og maís. Monsúnloftslagið setur landbúnaðinum skorður með sumarúrkomu og vetrarkuldum. FRAMBURÐUR Árframburður er jarðefni sem straumþungi ár/fljóts ber með sér. Yangtzefljót sem á upptök sín í Tíbet hefur gegnt veigamiklu hlutverki í sögu kínverskrar menningar. MIÐSTÝRÐIR STJÓRNARHÆTTIR Stjórnarfar eða stjórnskipulag þar sem allflestar ákvarðanir eru teknar af fámennum hópi í einni valdastofnun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=