Handbók um velferð og öryggi í leikskólum

Öryggishandbók leikskóla 33 7 Öryggi í ferðum á vegum leikskóla Leikskólar þurfa að móta sér skýrt verklag um undirbúning og framkvæmd ferða utan leikskólans, til að tryggja öryggi barna í ferðum á þeirra vegum, þar sem meðal annars er hugað að fjölda barna og starfsmanna. Vinna þarf að skipulagningu ferða í góðu samstarfi við foreldra þannig að þeir viti t.d. hvert förinni er heitið, dagskrá og tilgang ferðarinnar og hvaða búnað börnin þurfa að hafa meðferðis. Foreldrar bera ábyrgð á að börnin séu klædd eftir veðri og aðstæðum. Gott verklag er að óska skriflegs samþykkis foreldra fyrir þátttöku barna í ferðum á vegum leikskólans. Þegar ferðir eru skipulagðar þarf að gæta þess að ekki sé farið með börn á staði sem þau ráða illa við sökum aldurs eða þroska eins og í fjallgöngur eða á svæði sem þau eiga mjög erfitt með að fara um. Mikilvægt er að tryggja að börn verði aldrei viðskila við starfsfólk leikskóla í ferðum. Mikilvægt er að starfsmenn hafi gsm síma með í ferðalögum á vegum leikskóla. Tillaga að skipulagi við undirbúning ferða á vegum leikskóla er í viðauka. 7.1 Strætisvagna- og rútuferðir Kaflinn um „Öryggi í ferðum á vegum leikskóla“ gildir einnig í strætisvagna- og rútuferðum. Rútuferðir þarf að skipuleggja í samráði við foreldra. Tryggja þarf að í bifreiðinni sé viðeigandi öryggisbúnaður. Mikilvægt er að tryggt sé eitt sæti fyrir hvert barn þannig að öll börn geti notað viðeigandi öryggisbúnað eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Í reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum nr. 348/2007 er að finna allar upplýsingar um hvernig tryggja skuli börnum öryggi í ökutækjum. Ef um skólaakstur leikskólabarna er að ræða gilda sömu reglur. Einnig gilda reglur um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. Tillaga að verklagi við strætisvagnaferðir er í viðauka: 7.2 Bátsferðir Kaflinn um „Öryggi í ferðum á vegum leikskóla“ gildir einnig í bátsferðum. Skipuleggja þarf bátsferðir tímanlega og kanna hvort viðkomandi bátur hafi leyfi til fólksflutninga en slíkir bátar og skip þurfa að vera með viðeigandi öryggisbúnað og fyrir hámarksfjölda farþega. Afla þarf samþykkis foreldra fyrir slíkum ferðum. Þegar farið er um borð eða frá borði er æskilegt að fylgja tillögum um verklag við strætisvagnaferðir. Við komu um borð í skipið eða bátinn skal sá sem er ábyrgðarmaður í ferðinni kynna sér hvar björgunarbúnað er að finna og kanna rýmingaráætlun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=