Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 39 Vistheimt á hafi og strandsvæðum Hafið er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga en lítið hefur verið gert í vistheimt á hafi og strandsvæðum hingað til. Kvótakerfið var sett á til að koma í veg fyrir ofveiði á nytjastofnum en engin svæði í sjó hafa verið vernduð með friðlýsingu. Lítið er vitað um ástand lífvera í hafi sem eru ekki nýttar af manninum. Áratugur Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa 20212030 er gullið tækifæri fyrir Ísland til að bæta úr þeim málum. Vistkerfi í hafi og á strandsvæðum eru margskonar og margar ólíkar mannlegar hættur steðja að þeim. Þar má nefna súrnun sjávar, plastmengun, ósjálfbæra ferðamennsku, efnamengun, ofveiði, eyðileggingu vegna veiðiaðferða (t.d. botnvörpur sem hafa neikvæð áhrif á búsvæði lífvera og íslensk kóralrif), námugröft og olíu- og gasvinnslu. Þetta eru oft ólík vandamál en stundum er lausnin einföld: að vernda eða friða svæðið fyrir ágangi eða skrúfa fyrir mengun og bæta þannig vatnsgæðin. En stundum eru einfaldar aðgerðir ekki nóg og þá þarf að grípa til aðgerða til að endurheimta náttúrulega gæði og virkni vistkerfanna. Ein vistheimtaraðferð í sjó er t.d. að planta kóral á svæði þar sem kórall hefur eyðilagst. Við þekkjum skógareyðingu á landi en margir átta sig ekki á því að sambærilegir hlutir eru að gerast í þaraskógum í sjónum, svokölluð sjávarskógareyðing. Þaraskógar eru, eins og skógar á landi, afar mikilvæg vistkerfi sem eru heimili fjölmargra sjávarlífvera. Þaraskóga þarf að vernda og þar sem þeir hafa orðið fyrir skemmdum er einnig nauðsynlegt að þróa aðferðir til að endurheimta þessi vistkerfi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=