Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 38 Vistheimt í ferskvatni Votlendi og önnur vistkerfi í ferskvatni (m.a. stöðuvötn og straumvötn) eru á meðal mikilvægustu vistkerfa Jarðar. Þau eru afar frjósöm, með mikinn lífbreytileika og hafa þann eiginleika að koma næringu og vatni til annarra vistkerfa. Votlendi geyma gríðarlega mikið magn af kolefni og þegar votlendi eru ræst fram (með skurðum) þá losnar kolefnið út í andrúmsloftið og eykur þannig gróðurhúsaáhrifin. Votlendi finnast víða í heiminum, allt frá Íslandi til regnskóga hitabeltisins. Þau eiga það flest sameiginlegt að vera nær horfin eða í hættu vegna áhrifa mannsins en allt að 87% af votlendi í heiminum hefur tapast síðustu aldirnar. Athuganir hafa leitt í ljós að einungis 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og einungis 18% votlendis á Vesturlandi. Það er tvenns konar ávinningur af endurheimt votlendis. Í fyrsta lagi er verið að endurheimta mikilvæg búsvæði fyrir ýmsar lífverur, þar á meðal votlendisplöntur, vaðfugla og smádýr. Í öðru lagi er endurheimt votlendis loftslagsaðgerð þar sem aðallega er verið að hefta losun frá framræstu landi en einnig að hefja kolefnisbindingu á ný. Kolefnisbindingin sjálf tekur þó langan tíma og því er mikilvægt að vernda það votlendi sem ekki er búið að raska. Vistheimt í ferskvatni getur m.a. falið í sér að hreinsa frárennslisvatn og fjarlægja stíflur til að tengja aftur saman vatnasvæði og endurheimta lífríki og virkni vistkerfanna. Helsta aðferðin við að endurheimta votlendi er að moka ofan í skurði og hækka þannig yfirborð vatns. Þetta getur verið mjög dýr aðgerð og stundum eru hraukarnir (jarðvegurinn sem var mokað upp úr skurðunum) horfnir og finna þarf uppfyllingarefni annars staðar. Einnig þarf að hafa í huga að sum svæði henta betur til endurheimtar en önnur og þess vegna er mikilvægt að fara í samstarf við og fá álit sérfræðinga. Á framræstum svæðum sem henta vel til endurheimtar votlendis gæti verið nóg að fylla upp í skurðina en á sumum svæðum er einnig hægt að búa til litlar tjarnir sem laða að fjölbreytt dýralíf, m.a. fugla og pöddur. Mýrar, mólendi og önnur trjálaus búsvæði eru afar mikilvæg fyrir ýmsa mófugla. Á Íslandi verpir stór hluti af heimsstofnum heiðlóu, sendlings, spóa, sandlóu, lóuþræls og stelks og ein helsta ógnin sem þessi fuglar búa við á Íslandi er búsvæðatap og loftslagshamfarir.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=