Náttúra til framtíðar

| 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2022 | NÁTTÚRA TIL FRAMTÍÐAR 37 Til að endurheimta birkiskóg er ekki alltaf nóg að sá fræi eða planta trjám. Ef svæðið er mjög rofið eða örfoka þarf fyrst að búa til góðar aðstæður fyrir fræin svo þau spíri og nái að róta sig. Mikilvægt er að koma í veg fyrir mikla frostlyftingu, sem getur rifið í sundur viðkvæmar ræturnar, og það er hægt að gera með því að dreifa áburði og grasfræi. Gróðurhulan sem myndast við þessar aðgerðir hentar vel sem öruggt set fyrir fræ birkis og annarra tegunda. Síðan er hægt að gróðursetja birki, víði, reyni og jafnvel innlendar belgjurtir í litlar þyrpingar. Best er ef náttúran sjálf og vindurinn geti hjálpað til við að dreifa fræjum á milli þyrpinganna og stækkað þannig skóginn með sjálfgræðslu og með náttúrulegri framvindu. Þessi aðferðafræði er notuð í Hekluskógaverkefninu sem er eitt stærsta vistheimtarverkefni landsins. Það þarf að velja heppilega staði fyrir nýja birkiskóga og byrja á því að búa til aðstæður (fræset) svo fræ geti spírað og plöntur dafnað. Birki þroskar yfirleitt mikið af fræi. Fræið er í reklum sem auðvelt er að safna á haustin. Gulvíðir og loðvíðir framleiða einnig mikið fræ en þeim má einnig auðveldlega fjölga með græðlingum sem stungið er beint í jörðu að vori. Það er til mikils að vinna við endurheimt náttúruskóga. Gróðurfar og dýralíf eykst og verður fjölbreyttara (aukinn lífbreytileiki), vatnsheldni jarðvegs verður meiri (kemur m.a. í veg fyrir aurskriður) og lækir myndast. Þar að auki bindur jarðvegur og gróður kolefni þannig að vistheimt er því góð loftslagsaðgerð. Fjölmargar tegundir af lífverum finnast í birkiskógum, t.d. gulvíðir, loðvíðir, blæösp, reyniviður, ýmsar botngróðursplöntur, fuglar, smádýr og sveppir. Birki, gulvíðir og loðvíðir skapa skjól og undirbúa jarðveginn fyrir gróðurlendi í góðu standi. Birkiskógur þolir öskufall til dæmis vel eins og raunin var t.d. í Þórsmörk eftir gosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Í birkiskógum er mjög flókið samskiptakerfi milli plantna með m.a. svepprótum sem lítið er búið að rannsaka. Sveppir eins og kúalubbi geta borið næringu á milli trjáa og lakksveppir geta tengt saman birki og víðitegundir. Einnig geta plöntur sent skilaboð sín á milli um að verið sé að éta þær. Sjá meira um þetta í frásöguverkefni 6. Samfélagsmiðlar náttúrunnar. Plöntutegundir á válista sem finnast í birkiskógum eru m.a. engjakambjurt, glitrós, skógelfting, súrsmæra, blæösp, línarfi, eggjatvíblaðka og ferlaufungur. Í birkiskógum finnast einnig sjaldgæfar fléttur og allskonar gómsætir matsveppir eins og kantarellur og kóngsveppir. Með því að vernda birkiskógana er verið að vernda mikinn lífbreytileika.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=