Menntun til sjálfbærni

3. KAFLI Menntun til sjálfbærni – í skólastofunni 70 Þegar horft er til umbreytandi ferlis (sjá nánar í kafla 2.6.6.) sem einkennist af mismunandi stigum, þ.e. meðvitund, skilningi á flækjustigi og samhengi, tilfinningalegum tengslum, samkennd og valdeflingu, er mikilvægt að byggja upp kennsluna með þessi stig í huga. Til þess að stuðla að skilningi á flækjustigi og samhengi þarf einmitt þverfaglega vinnu sem á að eiga sér stað þegar unnið er með allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar. Tilfinningaleg tengsl og samkennd tengjast ekki síst áhrifamiklum kennsluaðferðum og valdefling verður sérstaklega þegar nemendum eru gefnir möguleikar á því að hafa áhrif, hvort sem er í skólanum eða víðar. Ofannefnd grundvallaratriði þarf síðan að flétta saman við þessar kennslufræðilegu nálganir í menntun til sjálfbærni eins og eru lýst í kafla 2.6. 3.4.2 JARÐVEGUR Í VÍÐU SAMHENGI – VERKEFNAPAKKAR Hér kemur dæmi um menntun til sjálfbærni þar sem hefðbundið málefni úr líffræði-/náttúrufræði- eða vistfræðikennslu er útgangspunktur. Í þessu dæmi er það málefnið jarðvegur en hægt er að ganga út frá hvaða málefni sem er úr líffræði-/náttúrufræði eða vistfræðikennslu. Jarðvegurinn sem dæmi hefur mjög skýr tengsl við íslenskan raunveruleika þar sem jarðvegs- og gróðureyðing hefur verið og er stórt umhverfisvandamál hérlendis. Ísland er því lifandi kennslustofa. Hér er verið að sýna hvernig hægt er að útvíkka hefðbundna kennslu og umhverfismennt yfir í menntun til sjálfbærni. Til þess að átta sig betur á því er kennslunni hér skipt niður í 3 stig þar sem fyrsta stigið er svona almennt sagt frekar hefðbundin kennsla um ákveðið málefni. Kennsla á þessu stigi veitir m.a. mikilvægan þekkingargrunn sem áframhaldandi kennsla á stigi 2 og 3 byggist á. Á öðru stigi er það sett í þverfaglegt og hnattrænt samhengi og á þriðja stigi sjá nemendur til þess að koma málefninu á framfæri, vera virkir og efla getu sína til aðgerða. Kennslan þarf samt ekki endilega fara fram í þessari röð stiga. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvað felst í menntun til sjálfbærni og hverju þarf að bæta við núverandi kennslu og hvernig. Verkefnin sem eru listuð hér að neðan sem dæmi geta sum snert fleiri en eitt stig þó að þeim sé hér skipt niður í 3 mismunandi stig kennslunnar. Eins krefjast verkefnin mislangs tíma í kennslu, sum eru aðallega hugsuð sem kveikja eða til þess að fá tilfinningalega tengingu á meðan önnur verkefni eru krefjandi og þurfa töluverðan tíma í undirbúningi og framkvæmd. Best er að vinna með nokkur verkefni saman á hverju stigi. Umbreytandi ferli: • Meðvitund • Skilningur á flækjustigi og samhengi • Tilfinningarleg tengsl • Samkennd • Valdefling Kennslufræðilegar nálganir í menntun til sjálfbærni: • Nemandinn í brennidepli • Þverfagleg verkefni og fjölbreyttar aðferðir • Tenging við nærsamfélagið • Hnattræn vitund • Ígrundun og mat • Umbreytandi nálgun • Upplýsa og fræða aðra • Valdefling og geta til aðgerða

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=