Menntun til sjálfbærni

4. KAFLI Leið til framtíðar – sjálfbær þróun 107 Veik og sterk sjálfbærni Út frá skilgreiningu á sjálfbærri þróun er ljóst að hún dregur í efa núverandi valdasamsetningu stjórnmála og hagkerfis. Sérstaklega út frá sjónarhóli hagkerfis hafa myndast m.a. tvær mismunandi skilgreiningar, veik og sterk sjálfbærni. Veik sjálfbærni setur manninn og þarfir hans í forgrunn. Hún felur í sér að athöfn eða framkvæmd megi hafa neikvæð áhrif á eina af stoðunum þremur, svo framarlega sem verulegur ávinningur fylgi fyrir hinar tvær. Það þýðir t.d. að gæði náttúrulegra auðlinda megi rýrna ef hagnaðurinn af framkvæmdinni styrki hagkerfið og samfélagið. Það er sem sagt hægt að skipta út náttúru fyrir fjármagn. Hér ríkir m.a. sú trú að tæknin muni veita lausnir á umhverfisvandamálum. Ljóst er að þessi skilgreining getur oft ekki rúmast innan skilgreiningar á sjálfbærri þróun þar sem hér er ekki endilega tekið tillit til takmarkandi þáttar náttúrulegra auðlinda. Þetta er því úreld skilgreining. Áherslur í sterkri sjálfbærni eru að náttúrulegar auðlindir séu takmarkandi og ekki hægt að nota óhóflega til lengri tíma. Ekki er hægt að skipta út náttúru fyrir eitthvað annað. Athöfn eða framkvæmd megi ekki hafa neikvæð áhrif á neina af hinum þremur stoðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. hvorki á náttúru, samfélag né hagkerfi. Samfélags- og hagkerfi megi ekki skaða náttúruna. Þannig má segja að skilgreining um sterka sjálfbærni sé í samræmi við skilgreiningu á sjálfbærri þróun. SAMANTEKT Grunnstoðir sjálfbærrar þróunar eru náttúra, samfélag og hagkerfi. Gengið er út frá því að takmarkaðar auðlindir Jarðar myndi lokuð kerfi sem samfélag og hagkerfi eru hluti af. Helstu einkenni sjálfbærrar þróunar eru réttlæti innan og milli kynslóða, siðferðislegur grunnur, heildstæð sýn, alþjóðleg nálgun, þátttökunálgun, ný hagfræðileg stefnumörkun er nauðsynleg og framtíðarsýn. Margar skilgreiningar eru til um útfærslu á sjálfbærri þróun, m.a. veik og sterk sjálfbærni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=