Lesrún 2

48 Til kennara Lesrún 2 er einkum ætluð nemendum á yngsta stigi grunnskólans en gæti einnig hentað eldri nemendum, þar á meðal þeim sem hafa annað móðurmál en íslensku. Bókinni er ætlað að mæta áherslum í aðalnámskrá um að nem-endur geti lesið mismunandi tegundir texta með gagnrýnu hugarfari og ráði yfir aðferðum og leiðum til að skilja og túlka það sem þeir lesa. Áherslur efnisins eru, eins og fram kemur í undirtitli, að lesa, skilja og læra, að staldra við þegar lesið er, ræða saman, hugsa um efnið og velta því fyrir sér. Með því móti verður lestur bæði gagnlegur og skemmtilegur. Samkvæmt aðalnámskrá felst í hug-takinu læsi bæði lestur og ritun. Í þessari bók er fyrst og fremst lögð áhersla á lesturinn, lesfærni og les-skilning. Miðað er við að nemendur æfist í að lesa mismunandi texta og fái þjálfun í að beita skipulega aðferðum til að glöggva sig á efninu, rifja það upp og draga út aðalatriði. Lögð er áhersla á að nemendur æfist í að nota aðferðir til að auðvelda úrvinnslu, bæði munnlega og skrif-lega. Er þá átt við hugarkort, tímalínu, spurningagerð og fleira. Hugsunin að baki flestum verkefnum er að nemendur leysi þau sameigin-lega, lesi jafnvel textann til skiptis, ræði saman, velti fyrir sér helstu atriðum, persónum, söguþræði og merkingu orða og orðasambanda. Fyrirmæli í bókinni eru oftast í fleir-tölu til að undirstrika samvinnu og samræður. Það útilokar hins vegar ekki að nemendur geti unnið verkefnin hver fyrir sig ef svo ber undir. Táknmyndir eru til leiðbeiningar um það á hvern hátt verkefnin skuli unnin og eru útskýrðar fremst í bókinni. Efnið í Lesrúnu 2 er fjölbreytt; ýmiss konar fróðleikur, ævintýri, gátur og ljóð. Gengið er út frá því að nemendur séu búnir að ná töluverðri lestrarfærni. Flestir lestextar eru á vinstri blaðsíðu. Oftast er stutt kveikja efst á síðunni sem leiðir inn í textann. Þar er yfirleitt verið að hvetja til umræðna í þeim tilgangi að fá nemendur til að íhuga hvað þeir vita nú þegar um efnið. Að tengja við fyrri þekkingu auðveldar þeim að tileinka sér lestextann sem fram undan er. Á hægri blaðsíðu eru verkefni sem reyna á lesskilning með margvíslegum hætti. Nemendur nýta sér upplýsingar úr texta til að vinna verkefni og draga ályktanir. Flestar verkefnagerðir eru endurteknar nokkrum sinnum og eru svipaðar áherslur og í fyrri bók Lesrúnar. Í Lesrúnu 2 er þó aukin áhersla á að þjálfa nemendur að búa sjálfir til spurningar út frá aðalatriðum texta. Með markvissri endurtekningu ná nemendur að tileinka sér ákveðnar aðferðir og smám saman að yfirfæra á frásögn og ritun í daglegu lífi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=