Kveikjur

82 Einu sinni var karl og kerling í koti. Þau áttu þrjár dætur, sem hétu Ása, Signý og Helga. Tvær hinar eldri voru hinar mestu státsmeyjar og bárust mikið á. Bjuggust þær á hverjum degi við tignum og ríkum biðlum, en sammála voru þær um það, að óhætt væri að hryggbrjóta nokkra þá fyrstu sér til gamans, – nógir mundu samt bjóðast, þegar þar að kæmi. Helga var þeirra yngst og var höfð út undan, var látin vinna verstu stritverkin á heimilinu og klæðast slitnum görmum af systrum sínum. En engum þeim, sem sá þær systur, blandaðist hugur um það, að Helga var þeirra fegurst og gervilegust. Það datt þeim systrum hennar síst í hug, og sjálf vissi hún það ekki heldur. Hvaða önnur ævintýri minnir þessi lýsing á? Taktu eftir því að allir virðast vita að Helga er fallegust, nema hún sjálf og systur hennar. Er lýsingin á Helgu og systrum hennar óvenjuleg eða dæmigerð? Eftir þessa fyrstu lýsingu hefur farið fram helsta kynning á bakgrunni ævintýrisins og inngangi þess þar með lokið. Í næstu setningu verða ákveðin skil með fyrstu orðunum – þá beygir frásögnin í einhverja ákveðna átt. Og forvitni okkar vaknar … Einn morgun var Ása að sækja sér þvottavatn í brunninn. Þá sá hún allt í einu undurfagra kvenmannsásjónu speglast í vatninu. Horfði hún hugfangin á hana um stund og mælti við sjálfa sig: „Þess vildi ég óska, að ég væri svona fríð.“ Þá leit hún upp aftur og sá hjá sér standa konu eina fagra og tígulega. „Vildir þú vera svona fríð?“ spurði konan. „Já,“ svaraði Ása, „ég vildi allt til þess vinna.“ „Þá skaltu koma með mér,“ sagði konan, „en þú verður þá líka að gera allt, sem ég bið þig.“ Ása játaði því, og þá leiddi konan hana með sér út í skóg. Gengu þær nokkra stund, þangað til þær komu að háum hól. Dyr voru á hólnum, og gengu þær rakleitt inn í hann. Voru þar húsakynni harla fögur og rúmgóð. Konan veitti Ásu bæði mat og drykk, en leiddi hana síðan að vefstól, sem stóð þar með marglitum vef. Bað konan hana að vefa áfram og fella fyrir sig vefinn. Lofaði Ása því og tók þegar til starfa. En af því að hún kunni ekkert til vefnaðar, tókst svo illa til, að hún ónýtti vefinn. Í öllum ævintýrum þurfa aðalpersónur að leysa verkefni til að öðlast einhvers konar verðlaun, fjársjóð eða upphefð og virðingu – oftast eru verkefnin þrjú talsins og því eigum við hugtak sem heitir þrítala. Þrítala: Í ævintýrum kemur talan þrír mjög oft fyrir með ólíkum hætti. Þetta þekkjum við líka úr mörgum gátum og bröndurum. Ævintýri – Sagan af Helgu Karlsdóttur

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=