Kveikjur

83 Þá mælti konan: „Þetta fórst þér illa, en það gerir minnst til, ef þér ferst annað verk betur, sem meira varðar. Nú langar mig til að biðja þig að mjólka kýrnar mínar, og þótt einhverjar skepnur komi og vilji sleikja froðuna ofan af fötunni hjá þér, þá máttu ekki amast við því, – og mundu það lengst allra orða.“ Ása staðlofaði því, fór með fötu út í fjósið og fór að mjólka kýrnar. Þegar hún hafði lokið því verki og setti fötuna frá sér, kom þar að afar stór og ljótur fressköttur og fór að sleikja froðuna af mjólkinni. Þá komu líka margar rottur og mýs og sýndu sig í því sama. Þá varð Ása fokreið og barði þetta hyski með svuntu sinni, svo að það þaut dauðhrætt sitt í hverja áttina. Ása getur ekki hlýtt þessum einföldu tilmælum konunnar. Hún er hamslaus; verður fokreið og ræðst á skepnurnar. Samt veit hún að verkefnin sem hún hefur verið beðin um að leysa eiga að færa henni mikla fegurð. Hvað segir þetta ykkur um skapgerð Ásu? Hvernig persóna er Ása? Færði hún síðan konunni mjólkurfötuna og sagði henni, hvernig farið hefði. „Þá efndir þú loforðið miður en skyldi,“ sagði konan alvarlega. „Það er vandséð, hvort þú getur orðið fríðari en þú ert nú. En hvort sem það verður eða ekki, þá skaltu fá kistil þenna að verðlaunum. Máttu ekki opna hann fyrr en á brúðkaupsdegi þínum.“ Síðan rétti konan Ásu grænan kistil, en hún varð himinglöð, þakkaði konunni fyrir og skundaði heim til sín. Sagði hún foreldrum sínum og systrum frá því, sem fyrir hana hafði borið, sýndi þeim kistilinn og kvaðst vera viss um, að í honum væri dýrindis kyrtill og aðrar gersemar, sem færu henni svo vel, að hún yrði fegursta brúður, sem sést hefði á landi hér. Ása og Signý virðast búa yfir öllum verstu mannkostum sem hugsast getur. Ása kemur heim með kistilinn og er full af óskhyggju, viss um að allt gott muni koma upp úr kistlinum. Samt leysti hún ekki verkefnin. Í næstu setningu sérðu að Signý er drifin áfram af öfund og hún fer sömu leið og Ása. Signý öfundaði systur sína mjög og einsetti sér að ná fundi konunnar tígulegu, ef unnt væri. Fór hún einn morgun út að brunninum til þess að sækja þvottavatn og sá þá í vatninu hina sömu yndisfögru kvenmannsásjónu, sem Ása hafði séð. Er ekki að orðlengja það, að það fór allt á sömu leið um hana eins og Ásu, að hún fór með konunni í hólinn, ónýtti vefinn, mjólkaði kýrnar og rak kvikindin í burtu, þegar þau ætluðu að sleikja froðuna ofan af fötunni. Konan hafði hin sömu orð og áður um verk hennar, gaf henni kistil bláan og sagði henni, að hún mætti ekki opna hann fyrr en á brúðkaupsdegi sínum. Signý kvaddi konuna og kom heim hin kátasta. Voru þær eldri systurnar tvær í sjöunda himni yfir kistlum sínum og létu þau tíðindi berast, að í þeim mundu vera hinir dýrustu gripir, gull og gersemar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=