Kveikjur

159 Skoðaðu fyrstu tvær línurnar og finndu hvernig errin þrjú drífa ljóðið áfram. Hvaða tegund ljóðs er þetta? Notaðu netið til að finna svarið. Hvernig stemmning er í því hvernig ljóðið endar? Endar það vel, illa eða hlutlaust? Í þessu erindi breytist ávarp ljóðmælanda eins og sést í fyrstu og þriðju línu erindisins. Hvaða áhrif hefur þetta? Ljóðið er í þátíð. Prófaðu að snúa því alfarið yfir í nútíð. Breytist stemmningin? Gengur ljóðið upp? Heldur takturinn sér? Formið er fast, takturinn skýr. Sterk og bein vísun í þekkt bókmenntaverk … hvaða áhrif hefur það á lesturinn? Hvað á ljóðmælandi við þegar hann talar um förina í hinn dimma bíósal? Hvað gerist þar? Og hver er ljóðmælandi? Palli var einn í heiminum Úr blárri rekkju reistu að morgni dags hjá rauðum kolli, fíl og gulum skóm. Er gólfið straukstu fótum fannstu strax, að fólkið það var horfið – löndin tóm. Þú hentist um á vökrum brunabíl, þú barst mjög á – þú lifðir hátt og flott. Þú fyrirleist hinn leiða og heimska skríl, sem loksins hafði kvatt og var á brott. Þú undir, Páll minn, einn, við leik og störf, en allt er hverfult: von um líf og tal þú fylltist, Páll, og félagslegri þörf við för þína í hinn dimma bíósal. Ó, Palli minn, í dauðum hlutaheimi þú hringlaðir á tilgangslausu sveimi. Höfundur: Þórarinn Eldjárn Í þessu ljóði leikur höfundur sér með upplýsingar og aðstæður úr sögu sem allir þekkja. Og kaldhæðnin er ekki langt undan. Geturðu gert þér í hugarlund hvernig þér þætti þetta ljóð ef þú þekktir ekki vísunina – ef það fjallaði bara um einhvern strák sem heitir Gummi eða Jónsi? Væri ljóðið þá einhvers virði? Væri það kannski alveg óskiljanlegt?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=