Handbók í textíl

126 Sjálfbærni í fataiðnaði Alla 20. öldina urðu til nýir tískustílar á hverju tíu ára tímabili. Unga fólkið sóttist eftir að klæðast fatnaði í takt við tíðarandann og á síðari hluta 20. aldar var unglingatískan orðin allsráðandi í vöruhúsum og verslunargötum. Vaxandi neysla hefur aukið hringrás tískunnar. Aftur á móti vinnur aukin neysla gegn sjálfbærri þróun. Iðnframleiðsla getur skaðað náttúruna og ýmis hráefni sem notuð eru í textíliðnaði eru ekki endurnýtanleg. Tískuiðnaðurinn eyðir þannig hluta af auðlindum jarðar. Í láglaunalöndum þar sem fataframleiðslan fer að mestu leyti fram eru vinnuaðstæður starfsfólks ekki til sóma og launin lág. Í dag er hugarfarið að breytast. Sjálfbær þróun þykir sjálfsögð og sífellt fleiri vinna að því að endurnýta textílefni. Margir kaupa fatnað á nytjamörkuðum eða eiga fötin sín lengur og fleiri velja að kaupa umhverfismerktan fatnað. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja þeirra í september árið 2015. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar á heimsvísu fyrir árið 2030. Markmiðunum er ætlað að hvetja til sjálfbærrar hugsunar og lífsstíls og að sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur verði tryggð. Íslenski þjóðbúningurinn Miklar hefðir eru í klæðnaði í tengslum við helgiathafnir í kirkjum og þjóðbúninga. Íslendingar eiga aldagamla hefð í gerð og notkun þjóðbúninga og þá helst fyrir konur; faldbúningur, upphlutur, peysuföt, kyrtill og skautbúningur. Faldbúningurinn er þeirra elstur og var upphluturinn notaður sem undirfatnaður fyrir þann búning en síðar notaður sem sjálfstæður búningur. Peysuföt voru í upphafi notuð sem vinnufatnaður þar sem auðveldara var að hreyfa sig í prjónaðri peysu en síðar var hún einnig saumuð úr efni. Við upphlut og peysuföt er notuð skotthúfa. Skautbúninginn hannaði Sigurður Guðmundsson málari um miðja 19. öld í samvinnu við dugmiklar sníða- og saumakonur. Skautbúningurinn er helst notaður sem hátíðarbúningur, til dæmis klæðist fjallkonan búningnum á 17. júní, þjóðhátíðardegi Íslendinga. Höfuðbúnaður skautbúningsins er hár hvítur faldur með blúnduslæðu og gylltri spöng. Sigurður hannaði munstrin fyrir baldýringuna á bolhluta búningsins og munsturbekki neðan á pilsi og sótti fyrirmyndir að munstrunum í íslenska náttúru. Sigurður hannaði líka einfaldan kyrtil sem hann hugsaði fyrir ýmis tækifæri eins og fermingu og giftingu. Þjóðbúningur karla er síðar eða hnésíðar buxur, tvíhneppt vesti, hvít skyrta og skotthúfa. Einnig er til svokallaður hátíðarbúningur sem hannaður var fyrir lýðveldisafmælið 1994. Börn í íslenskum þjóðbúningum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=