Handbók í textíl

108 Í Mið-Asíu nota hirðingjar, sem flakka á milli staða, sérstök hús (Yurt) úr þæfðum voðum sem auðvelt er að taka niður, pakka og flytja með sér. Í Asíu er einnig hefð fyrir því að nota þæfð teppi, vegghengi og annan minni húsbúnað. Þæfing Þæfing ullar hefur lengi verið þekkt. Elstu þæfðu munirnir á Norðurlöndum eru frá því um 400–500 e. Kr. Einnig er vitað að víkingarnir notuðu þæfðar flíkur. Á Íslandi hér áður fyrr, var algengt að þæfa flíkur til að gera þær endingarbetri eins og prjónaða sokka, vettlinga og peysur og ofið vaðmál. Aðallega var notuð blautþæfing og til voru sérstök tréform, t.d. fyrir sokka til að þæfa þá í rétt form og rétta stærð. Þannig var allt þæft í höndum en síðar var hægt að fá vaðmál þæft í ullarverksmiðjum sem voru stofnaðar undir lok 19. aldar í Mosfellsbæ og á Akureyri. Þæfða voðin, hvort sem hún hefur verið ofin eða prjónuð, verður þéttari og betri vörn gegn vindi og regni. Áður en byrjað er að þæfa er ullin hreinsuð, þvegin og kembd þannig að ullarhárin liggi öll í sömu átt. Íslenska ullin sem notuð er í þæfingu er blönduð af tog- og þelhárum. Á ullarhárunum er einskonar hreistur og við þæfinguna (hita, sápu og núning) rísa þessi hreistur upp og núast saman og festast þannig. Blautþæfing er gjarnan notuð til að búa til sléttan flöt (voð) og því tilvalið að vinna með aðferðina á myndrænan hátt og nota marga liti af kembu. Ullina er hægt að móta á ýmsa vegu og í blautþæfingu er einnig hægt að móta t.d. tösku eða búa til kúlulaga form. Í þurrþæfingu er aftur á móti ekki notað vatn heldur er unnið á ullarhárunum með sérstakri þurrþæfingarnál. Nálin rispar í hárin þannig að þau ýfast og mótast og þéttast saman. Með því að vinna stöðugt með nálinni er hægt að móta ullina í nánast hvaða þrívíða form sem er. Einnig má nota þurrþæfingu (kembu og nál) til að skreyta tilbúna blautþæfða voð.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=