Ertu? Vinnubók í lífsleikni - rafbók

23 Að hlusta Eitt það mikilvægasta í samskiptum er að kunna að hlusta. Öll ættu því að leggja sig fram um að vera góðir hlustendur. Með því að hlusta á aðra sýnum við virðingu. Lestu um sex mikilvægustu atriðin sem hafa þarf í huga til að vera góður hlustandi. H Horfðu framan í þann sem er að tala Snúðu þér að þeim sem þú ert að tala við og sýndu þannig að þú beinir athygli þinni að viðmælandanum og því sem hann er að segja. Ef þú horfir annað eða ert með flöktandi augu þá eru það ótvíræð merki um að þú ert ekki að hlusta af athygli. L Líkamstjáning – líttu á hana Stundum segja svipbrigði, látbragð og raddblær meira en orðin sem sögð eru. Þess vegna er mikilvægt að veita slíkum atriðum athygli svo að þú getir betur áttað þig á hvað liggur í orðunum og hvernig þeim sem er að tala líður í raun og veru. U Uppbyggilegar spurningar eru góðar Spyrðu viðmælandann spurninga sem virkja hvetjandi á hann og hjálpa honum að tala óhikað og einnig til að ganga úr skugga um að þú hafir skilið hann rétt ef einhver vafi gæti verið á því. Þetta geta verið spurningar eins og: „Já, þú átt við að …“ eða „Var þetta erfitt eða rosagaman?“ og „Hvað prófaðirðu fleira?“ S Slepptu því að grípa fram í Ef þú grípur fram í fyrir þeim sem er að tala sýnir þú virðingarleysi. Leyfðu honum að klára að segja það sem viðmælandanum liggur á hjarta og taktu svo til máls og segðu það sem þú vilt segja. En varaðu þig á að lenda ekki í „ég-líka-gryfjunni“ sem er þannig að þú hlustar á þann sem er að tala og segir svo um leið og viðkomandi er búinn frá einhverju svipuðu sem þú hefur lent í eða upplifað, nema bara hvað það var miklu stórkostlegra og merkilegra en hjá hinum. Dæmi: „Já, en þetta er nú ekkert. Þú ættir að vita þegar ég fór í … þá var sko …“ T Taktu undir með því að kinka kolli eða segja „aha“ eða „einmitt“ Með því að taka undir á þennan hátt ertu um leið að viðurkenna það sem viðmælandinn segir. Það þarf þó ekki endilega að þýða að þú sért sammála því sem hann segir. Allir hafa rétt á því að hafa sínar skoðanir. En með því að kinka kolli, segja „aha“ eða „einmitt“ lætur þú í ljós að þú skiljir það sem sagt er. A Augnsamband og athygli – það er málið Þú sýnir áhuga og athygli með því að horfa í augu þess sem er að tala. Ekki stara, það þykir öllum óþægilegt. Gangi þér vel að verða virkur hlustandi!

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=