Ég, þú og við öll - Kennsluleiðbeiningar

Ég, þú og við öll – Kennsluleiðbeiningar – © 8946 Námsgagnastofnun 2014 9 Eðlis- og tvíhyggja – Hvað er kyn? Þegar talað er um kyn er yfirleitt átt við líffræðilegt kyn sem ákvarðast af litningum, hormónum og kynfærum. Líffræðilegt kyn er ekki það sama og félagsfræðilegt kyn eða kyngervi. Kyngervi mótast af samfélaginu og þeim félagslegu aðstæðum sem einstaklingurinn elst upp við. Auk líffræðilegs kyns og kyngervis er talað um kynhneigð. Vísindamenn eru ekki á eitt sáttir um hvort eða hvernig kynhneigð tengist líffræðilegum eða félagslegum þáttum en helst er horft til samverkunar líffræðilegra, félagslegra og sálfræðilegra þátta. Rannsókn Alfreds Kinsey á kynhneigð fólks sýndi fram á að það væri einfald- lega ekki hægt að stilla upp gagnkynhneigð og samkynhneigð sem tveimur ósættanlegum pólum. Við rannsóknina var beitt sjö þrepa skala milli algjörrar samkynhneigðar og algjörrar gagnkynhneigðar en stærsti hluti úrtaksins lenti í þrepunum þar á milli enda um flókna og margslungna fléttu kynhegðunar, kynvitundar og kynlangana að ræða. Ástæður kynhneigðar skipta litlu máli enda ætti áherslan að vera á mikilvægi þess að allir njóti virðingar óháð kynhneigð. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar á hugtakið „kyn“ við um líffræðileg og líkamleg einkenni kvenna og karla. Hugtakið „kyngervi“ á hinsvegar við um félagslega mótuð hlutverk, hegðun, atferli og einkenni sem hverju samfélagi þykir hæfa konum eða körlum. Hvað er eðli? Hugmyndir um eðlismun á kynjunum hafa lengi lifað góðu lífi og ýmsar leiðir farnar til að sýna fram á þennan meinta mun. Á 17. öld lýsti franski heimspekingurinn Nicolas Malebranche því yfir að konum væri ómögulegt að brjóta heilann of mikið um erfið viðfangsefni einfaldlega vegna þess að „heilaþræðir“ þeirra væru of viðkvæmir. Gegnum aldirnar hafa ýmsar mælingar á höfuðkúpum, höfuðlagi, rúmmáli höfuðkúpna og þyngd heila átt að sýna fram á eðlislæga undirgefni og greindarskort kvenkyns. Þegar vísindamönnum var ljóst að líklega væri stærðarmunur heila og höfuðkúpu í beinum tengslum við líkamsstærð almennt, var tekið til þess ráðs að leita skýringa á eðlismun kynjanna í hlutföllum milli stærða líkamshluta. Öfgafyllsta dæmi þessa er líklega það að hlutföll milli stærðar lærleggs og þyngdar heila áttu að sanna eðlismun kynjanna. Á 20. öld voru það sálfræðirannsóknir og svo síðar heilaskönn sem fengu (og fá enn) að njóta almennr- ar hylli sem sönnun þess að konur og karlar séu ólík í eðli sínu. Samkvæmt eðlishyggjukenningum eru: Konur: tilfinninganæmar, háðar öðrum, ekki virkar, hljóðlátar, þokkafullar, saklausar, eiga auðvelt með að lesa í tilfinningar annarra, hafa meðfædda tilhneigingu til að annast aðra og vinna handavinnu. Karlar: sjálfstæðir, tilfinningalega vanþroskaðir, virkir, harðir af sér, sækja í samkeppni, hafa meðfædda rýmisgreind og skilning á vélum. Hvor listinn ætli lýsi betur sterkum einstaklingi á vinnumarkaði og hvor einstaklingi sem ætti helst að halda sig heima og sinna börnum og búi? Þessar kenningar byggja á mjög hæpnum grunni og höfða til vinsælla viðhorfa um eðli og hlutverk kynjanna meðal almennings og til þess að viðhalda ríkjandi gildum. Gildin má hins vegar rekja langt aftur í fornöld. Forn-Grikkir skiptu heiminum í tvennt, í hið kvenlega og hið karlmannlega; karl/kona, sál/líkami, menn- ing/náttúra, skynsemi/tilfinningar, ljós/myrkur, gott/slæmt. Þessi heimssýn er kölluð tvíhyggja og er

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=