Skapandi skóli

59 EITT OG ANNAÐ UM RITUN : SKAPANDI SKÓLI Eitt og annað um ritun Allir kennarar eru íslenskukennarar. Þetta er staðhæfing sem kennarar kannast sjálfsagt flestir við. Enda er það svo að allt það sem kennt er í íslenskum skólum, þar með talin önnur tungumál en íslenska, byggir á móðurmálinu. Í nær öllum námsgreinum og bóknámstengdum viðfangsefnum glíma nemendur við tungumálið með ritun. Stundum með því að svara spurningum skriflega, stundum með ritun endursagna eða úrdrátta, stundum frjálsri ritun eða á annan hátt. Mikilvægt er að viðfangsefni ritunar séu fjölbreytt og að fjallað sé um byggingu texta, hugað að málfari, stafsetningu og notkun greinarmerkja. Svo er ekki síður þýðingarmikið að fjalla markvisst um inntak ritaðs texta og ígrunda vel bæði merkingu og stíl. Færa má rök fyrir því og því verður varla á móti mælt að ritfærni færi fólki vald.28 Sá sem á auðvelt með að skrifa og getur leikið sér að málinu er að jafnaði gjaldgengari í samskiptum og samfélagslegri umræðu en sá sem ekki býr yfir sömu færni. Að auki er ritlist mikilvægt náms- og kennslutæki, þar sem hún reynir á nemandann við skapandi hugsun og rökræna ígrundun, krefst einbeitingar og skerpir athyglisgáfuna. Af öllu þessu leiðir að leggja þarf rækt við ritunarkennslu allt frá upphafi skólagöngu.29 Að skrifa sig til læsis Eins og gefur að skilja eru tengsl ritunar og læsis órjúfanleg. Kennarar á Norðurlöndum hafa á undanförnum árum nýtt þessi sterku tengsl til lestrarkennslu. Þeir nota aðferðir norska menntunarfræðingsins Arne Trageton í ritun með markvissum hætti strax í upphafi lestrarkennslunnar hjá yngstu nemendunum.30 Nemendur nota tölvu til að læra stafina, skrifa út frá tali og læra að lesa um leið.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=