Laxdæla saga

34 Þegar þetta gerðist þurfti Ólafur að fara að heiman. Á meðan kallaði Þuríður dóttir hans til sín húskarla og bað þá að fara með sér. Hún hafði með sér Gróu dóttur sína og lét húskarlana róa með þær á ferju út eftir Hvammsfirði. Þegar þau komu út að Öxney lét hún skjóta út litlum báti af ferjunni. Hún fór í bátinn með barnið og tvo menn með sér en bað hina að bíða á ferjunni. Svo reru þeir bátnum að skipi Geirmundar. Þá tók hún upp bor og bað annan manninn að bora göt á skipsbátinn, svo að hann yrði ófær ef til hans þyrfti að taka. Síðan lét hún flytja sig í land í Öxney. Þaðan gekk hún út í skipið. Þetta var snemma morguns í sólarupprás og voru allir í svefni á skipinu. Þuríður gekk að þar sem Geirmundur svaf, setti barnið í svefnpokann hjá honum og tók sverðið Fótbít sem lá hjá honum. Síðan gekk Þuríður aftur í land og fór út í bátinn. Nú fer stúlkan að gráta. Við það vaknar Geirmundur. Hann sprettur upp og þreifar eftir sverðinu en finnur það ekki. Gengur hann þá út að borðstokknum og sér að þau Þuríður róa frá skipinu. Geirmundur kallar á menn sína og biður þá að taka skipsbátinn og róa á eftir þeim. Þeir gera það en þegar þeir eru skammt komnir finna þeir að kolblár sjór fellur inn í bátinn. Snúa þeir þá aftur í skipið. Þá kallar Geirmundur til Þuríðar og biður hana að skila sverðinu en taka við stúlkunni, „og haf héðan með henni fé svo mikið sem þú vilt.“ Hún neitar því. Hann svarar: „Ekkert happ mun þér í verða að hafa með þér sverðið.“ Hún sagðist ætla að hætta á það. „Það læt ég þá um mælt,“ segir Geirmundur, „að þetta sverð verði þeim manni að bana í þinni ætt er mestur skaði er að og óskaplegast komi við.“ húskarl merkir frjáls vinnumaður

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=